151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir frumkvæði hennar í því máli sem hér er til umræðu, þingsályktunartillögu um grundvallarmannréttindi, grundvallarréttindi kvenna til að hafa full yfirráð yfir eigin líkama. Það er í rauninni pínulítið tregafullt að þurfa að koma upp í pontu á Alþingi Íslendinga árið 2020 og ræða mál er varðar slík grundvallarréttindi og ræða mál er varðar bann pólskra stjórnvalda á þessum grundvallarréttindum kvenna. En það er engu að síður nauðsynlegt.

Þingsályktunartillagan snýst um að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu hér á landi. Það verði þó bundið þeim skilyrðum að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lagalegra hindrana í heimalandi, sem og að viðkomandi geti framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu. Með öðrum orðum er verið að afmarka þennan stuðning við ákveðinn hóp.

Fyrir þá sem eru mögulega að koma að málinu án þess að þekkja baksöguna er nauðsynlegt að árétta að hér er um að ræða grundvallarmannréttindi. Grundvallarréttindi. Þá er einnig rétt að árétta að þær konur sem leita ásjár heilbrigðiskerfisins vegna beiðni um þungunarrof gera slíkt af ýmsum ástæðum, en þó ávallt vegna þess að það er þeim konum fyrir bestu sem og á stundum þeim algjörlega lífsnauðsynlegt. Við konur erum nefnilega í misjafnri aðstöðu til að fjölga mannkyninu. Það er bara þannig. Og stundum stjórnum við þessu ekki. Sumar konur eiga sér einfaldlega enga málsvara. En þau pólsku stjórnvöld sem nú ríkja hafa af einhverjum ótrúlegum ástæðum tekið þá ákvörðun að svipta pólskar konur sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama. Þá er ég stolt að standa hér í pontu og segja það fullum fetum að ég stend með pólskum konum (Gripið fram í: Heyr, heyr.) í baráttu þeirra fyrir sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Og ég ætla aldrei að leyfa mér að standa hér og mótmæla því. Aldrei.

Þetta þingmál snýst um það að standa með pólskum konum sem vegna félagslegra eða heilsufarslegra aðstæðna þurfa að óska eftir þungunarrofi en fá það ekki vegna lagalegra hindrana í heimalandi. Athugið, það er ekkert læknisfræðilegt þar á bak við. Þetta eru lagalegar hindranir sem settar eru af núverandi stjórnvöldum í Póllandi, eingöngu út frá einhverjum kreddufullum hugmyndum gegn réttindum kvenna. Ég leyfi mér bara að taka svona sterkt til orða af því að það er ekkert annað sem býr þarna að baki, ekkert annað.

Já, herra forseti. Það eru þessar konur sem við verðum að hugsa um því að þó að það að vera barnshafandi sé alla jafna mjög ánægjuleg og gleðileg upplifun þá eru bara fjölmörg tilvik þar sem það er ekki þannig. Sem betur fer er læknisfræðin þannig að hún leyfir það að koma í veg fyrir stórkostlegt tjón, leyfir konum að grípa inn í svo ekki verði stórkostlegt tjón. Af því að það er nauðsynlegt og það skiptir öllu máli að virða rétt þeirra kvenna sem standa í slíkum sporum. Konur gera það auðvitað ekki að gamni sínu að fara í þungunarrof. Ég veit ekki um eina einustu konu sem hefur gert slíkt að gamni sínu. Og það verður að virða þá skýru stöðu, skýran rétt kvenna yfir eigin líkama.

Örlítið vegna umræðu um áhyggjur yfir getu heilbrigðiskerfisins, sem tveir hv. þingmenn hafa farið hér yfir, þá er vert að benda á það í þessari ræðu, eins og í andsvari áður, að þeir sem ekki hafa verið búsettir hér á landi síðustu sex mánuði eru einfaldlega ekki sjúkratryggðir á Íslandi. Þá skiptir engu máli hvort um er að ræða Íslendinga eða erlendra borgara. Íslendingar sem flytjast aftur hingað til lands eftir búsetu erlendis eru ekki sjúkratryggðir á Íslandi fyrstu sex mánuðina eftir að þeir koma heim. Það gildir alveg það sama með aðra, með erlenda borgara. En um þá borgara, einstaklinga sem hingað koma og eru með evrópska sjúkratryggingakortið gilda ákveðnar reglur, sem er trygging fyrir heilbrigðiskerfið. Þess vegna mun kostnaðurinn lenda á heimalandinu, vegna evrópsku sjúkratryggingareglugerðarinnar, sem greiðir kostnaðinn sem fylgir slíkum aðgerðum hér á landi. 80% af þungunarrofi eru framkvæmd með lyfjagjöf. Slík lyfjagjöf kostar rúmar 20.000 kr. Það mun ekki sliga íslenskt heilbrigðiskerfi. Sjúklingurinn greiðir fyrir þetta sjálfur.

Ég væri stolt af því ef Alþingi Íslendinga gæti nú með skýrum hætti stutt grundvallarréttindi pólskra kvenna og þeirra kvenna sem þurfa að þola það að lögum sé beitt gegn þeirra grundvallarrétti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)