151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki á mér setið að koma hér og mótmæla þessum málflutningi frá hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem sakar mig um óheiðarleika fyrir að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og kostnaði sem af þessu máli gæti hlotist fyrir ríkissjóð. Hvers lags málflutningur er þetta, herra forseti? Ég hef bara aldrei heyrt annað eins. Ég sit í fjárlaganefnd og ber ábyrgð á því að viðhafa ráðdeildarsemi í fjármálum ríkissjóðs og ég hef sýnt fram á það hér að þetta mál getur haft aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég er búinn að sýna fram á það, m.a. með fyrirspurn sem ég lagði fyrir fjármálaráðherra fyrir nokkru um það hvað væri útistandandi af kostnaði sem hlotist hefur af aðgerðum fyrir útlendinga við Landspítala – háskólasjúkrahús. Það eru hundruð milljóna. Ég sit því ekki undir því að ég sé sakaður um óheiðarleika í þessari umræðu.