151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki að viðurkenna eitt eða neitt fyrir hv. þingmanni. Ef hún hefði hlustað á ræðu mína áðan þá sagði ég í upphafi að skoðanir mínar á fóstureyðingum væru kunnar þingheimi og hún veit það vel. Ég er almennt á móti fóstureyðingum en ég taldi líka upp þau atriði í þessu máli sem ég hef áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af álaginu á Landspítalanum vegna þessa máls, áhyggjur af starfsfólkinu sem þarf að framkvæma þessar aðgerðir og ég hef áhyggjur af kostnaði sem það getur haft í för með sér fyrir ríkissjóð Ég hef rökstutt þetta ágætlega ef hv. þingmaður hefur hlustað á ræðu mína.

Annað sem fram hefur komið frá hv. þingmanni í minn garð er útúrsnúningur. Ég sit ekki undir því að það sé óheiðarlegt að tala um að þetta hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég sagði það hér áðan og ég stend við það. Þar sem ég sit í fjárlaganefnd ber mér skylda til þess að leita leiða til þess að ráðdeildarsemi ríki í fjármálum ríkisins. Það eru mörg dæmi um það að hingað koma útlendingar og leita eftir heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem greiða aldrei fyrir hana og það tekst aldrei að innheimta upphæðina. Það fellur á ríkissjóð. Það er kostnaður, hv. þingmaður, og það er enginn óheiðarleiki að segja frá því hér í ræðustól Alþingis.