151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á flutningsræðu hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og andsvör við henni. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar og andsvör við henni og svo á ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar í kjölfarið. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlustaði á umræðurnar fram að því að hann tók til máls vegna þess að þar var öllum hans áhyggjum svarað hvað varðaði fjármagn, kostnað, álag á heilbrigðiskerfið, umfang þessara aðgerða o.s.frv. Afsakið þótt ég dragi heilindin í því í efa að koma síðan upp og mæla mót málinu enn eina ferðina þrátt fyrir að þessum athugasemdum hafi þegar verið svarað, einfaldlega til þess að geta komið með aðrar athugasemdir en þær að viðkomandi hv. þingmaður sé andsnúinn þungunarrofi. Þegar búið er að svara öllum þessum áhyggjum þá þarf a.m.k. að bregðast við því en ekki halda áfram sama málflutningi eftir að búið er að svara þeim, eftir að búið er að afgreiða þær áhyggjur sem þingmaðurinn bar á borð. Ég sé ekki hvernig það er heiðarleg umræðutaktík heldur.