151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér stöndum við hv. þingmennirnir, sem hvorugur, að ég held, hefur nokkurn tíma verið með leg, og ræðum upplifun kvenna af því að verða þungaðar og þurfa að rjúfa þungun. Hv. þingmaður ímyndar sér að það sé skelfilegasta lífsreynsla sem hugsast geti að fara í þungunarrof. Það er ekki það sem kom fram þegar við fjölluðum um frumvarp um þungunarrof í velferðarnefnd. Þar kom einmitt fram að vegna þess að þær konur sem taka þá ákvörðun að fara í þungunarrof, gera það af þörf eða vegna þess að þær vilja það, þá upplifa þær létti að aðgerð lokinni. Auðvitað þurfum við að hafa félagsleg úrræði til að grípa konur ef þetta sest á þær að lokinni aðgerð, auðvitað. Um það ræddum við líka, gott ef það rataði ekki í meirihlutaálit velferðarnefndar á sínum tíma. En það er bara eins og með allar aðgerðir í heilbrigðiskerfinu, tilfinningarnar geta komið aftan að fólki eftir aðgerð og þá á kerfið að geta gripið fólk og leitt það í gegnum þær tilfinningar. En það er ekki grundvöllur þess að skrúfa fyrir rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama.

Nú er ég að reyna að muna hvaða orð var notað, já, orðið sem var notað í lokaafgreiðslu frumvarps til laga um þungunarrof af hv. þm. Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, var „geðþótti“ kvenna. Það var sem sagt talað gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna með því að kalla hann geðþótta. (Forseti hringir.) En þetta er bara það. Þetta snýst um það, (Forseti hringir.) hvort sem við köllum það geðþótta eða sjálfsákvörðunarrétt, að við treystum konunni bara. (Forseti hringir.) Hún er fullfær um að taka þessa ákvörðun sjálf.