151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það öðru sinni að þingmanni er frjálst og honum beri raunar skylda til að fara að sannfæringu sinni og skoðunum. Ég tek líka undir það að við getum verið sammála um að vera ósammála. En það er ánægjulegt að heyra að þingmaðurinn lýsir því yfir að hann styðji íslensku löggjöfina hvað þetta varðar. En meginatriðið, kjarnaatriðið og það atriði sem skiptir máli í löggjöfinni er vitaskuld tímamarkið. Að segja: Ég er hlynntur því að konur eigi að hafa þennan rétt upp að 6. viku, 8. viku, eða hvert svo sem tímamarkið er, er ekki stuðningur við frumvarpið. Það er ekki stuðningur við vernd kvenna. Og aftur minni ég á það, sem ég held að þingmanni sé kunnugt um, hverjar ástæðurnar eru: Þegar kona stendur frammi fyrir því eftir 20 vikna sónarinn að það er eitthvað meiri háttar að, ýmist þannig að barnið er mikið fatlað, barninu er ekki í hugað lífi eftir fæðingu eða að lífi konunnar sjálfrar er stefnt í hættu. Þannig að þegar hv. þingmaður segir: Við getum haft okkar skoðun á því hvert tímamarkið á að vera, þá segi ég: Í því felst ekki stuðningur við réttindi kvenna.