151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Herra forseti. Ég ætla ekki að nýta allan minn ræðutíma hér í seinni ræðu minni en vil samt sem áður fá að nýta tækifærið til að þakka fyrir þessa umræðu, þessa góðu þátttöku í umræðunni, og um leið árétta hver tilgangur tillögunnar er. Tilgangur þingsályktunartillögunnar er sá að tekin sé afgerandi staða með kvenréttindum í Evrópu. Að við hér, þingmenn á þjóðþingi Íslendinga, tökum sterka og skýra afstöðu með þeim réttindum kvenna í Póllandi sem verið er með öllum ráðum að reyna að afnema. Vegna þess að við erum með orðspor, stöðu til þess að geta stutt við réttindabaráttu kvenna í Póllandi og okkur ber hreinlega skylda til þess. Okkur ber sérstaklega skylda til þess þegar við erum að verða vitni að því alvarlega bakslagi þegar kemur að réttindabaráttu kvenna, sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir sínum eigin líkama. Þetta á sér nú stað í Evrópu, í löndum sem eru aðildarríki Evrópuráðsins, í löndum sem eru í Evrópusambandinu og hafa undirgengist alþjóðlega samninga og skuldbindingar til þess að virða mannréttindi, til að virða réttindi kvenna. Það er þess vegna sem okkur ber hreinlega skylda til þess að senda út skýr skilaboð til þess að við stöndum vörð um mannréttindi en sitjum ekki hjá og segjum ekki neitt og gerum ekki neitt, af því að það er ekki að taka afstöðu með mannréttindum og kvenréttindum.

Ég vil líka árétta, af því að hér hafa komið upp þingmenn sem haft hafa áhyggjur af kostnaði ríkissjóðs og álagi á heilbrigðiskerfið, að ég skil vel þær áhyggjur af heilbrigðiskerfinu við núverandi aðstæður þegar heimsfaraldur ríkir. Ég skil það vel og hef skilning á því að fólk viðri þær áhyggjur sínar. En ég bið þá þingmenn sem hafa áhyggjur af þessu, ef það er raunverulega ástæðan fyrir áhyggjunum, ef það er raunveruleg ástæða, að vera ekki hræddir við það. Það munu ekki flæða hér yfir tugþúsundir kvenna, eins og einhverjir þingmenn hafa staðhæft. Við vitum ekkert um það. Þessi þingsályktunartillaga fjallar líka um það að fela heilbrigðisráðherra, framkvæmdarvaldinu, að tryggja aðgengi einstaklinga sem ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof vegna þess að viðkomandi kona eða stúlka fær ekki þau réttindi í sínu heimalandi.

Ég vildi bara árétta hver megintilgangur þingsályktunartillögunnar er, vegna þess að hér hefur umræðan farið svolítið út og suður. Hér hefur verið fjallað um lög sem samþykkt voru á þinginu í fyrravor, lög nr. 43/2019, sem eru heildarendurskoðun á lögum um þungunarrof. Það er kannski ekkert skrýtið vegna þess að við erum þar með löggjöf sem stendur mjög framarlega í Evrópu og setur okkur líka á þann stað að við getum sent út skýr skilaboð til kvenna í Póllandi og líka á Möltu um að við getum og við viljum standa með réttindum kvenna.

En ég þakka enn og aftur fyrir þann stuðning sem þingmenn, sem eru meðflutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu, sýndu í verki. Ég þakka ykkur fyrir þessa umræðu sem við höfum átt hér og skoðanaskipti og ég óska þess að hv. velferðarnefnd fjalli vel og ítarlega um þetta mál. Ég minni á að svona víðtækur stuðningur við þingsályktunartillöguna ýtir undir að málið nái að ganga fram hratt og vel.