151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

238. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan eru smávirkjanir skilgreindar sem 10 MW og minni. Í greinargerðinni segir líka að við hverja framkvæmd, við hverja virkjun, sé metið hversu mikil vinnan er og hvort jafnvel verði farið í umhverfismat. Mér skilst að þessar stærri virkjanir, sem gætu kannski talist 500 kW og stærri, upp í 10 MW, hafi farið að fullu í umhverfismat. Vinnan við 200 kW virkjun er ekki sú sama og við stærri virkjun. Það fer alveg eftir því hversu mikil áhrif Skipulagsstofnun telur að virkjunin hafi og ég held að það verði ekkert dregið úr því. Kannski er ekki mikill vilji til þess. En það að einfalda kerfið þarf ekkert endilega að þýða að verið sé að ráðast í hvað sem er, hvar sem er. Ég held að það sé útgangspunkturinn. Það er mikilvægt að endurskoða þetta og horfa þá líka til Noregs, hvað Norðmenn eru að gera. Þeim virðist takast vel upp þannig að við getum kannski tekið upp eitthvað eftir þeim og gert eitthvað betur. En alla vega þyrfti að skoða ferlið með þeim gleraugum.