151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eðli máls samkvæmt erum við að huga að framtíðinni, sem eru börnin okkar sem við viljum reyna að hlúa að og halda mjög vel utan um. Ég hef áhyggjur af börnum með námsörðugleika sem eru í efstu stigum grunnskóla og líka þeim sem eru á fyrstu árum framhaldsskóla, sem eru að fara á milli skólastiga. Ég hef ekki endilega áhyggjur af hættu á brotthvarfi heldur því að námsárangurinn verði ekki eins góður og hann gæti verið ef við gætum haft mjög gott utanumhald. Það er alveg rétt að komið hefur fram að kennarar og starfsfólk ætla að koma nemendum í gegnum þetta. Þess vegna hef ég áhyggjur af því sem ég heyri úr mínum gamla ranni að það er gríðarlega mikið álag í skólunum. Hér voru álagsgreiðslur nefndar áðan og við þurfum að horfast í augu við að það eru mismunandi greiðslur milli skóla. Ég held að við þurfum að huga að því í framhaldsskólanum að gefa færi á því að það sé eitthvað leiðrétt.