151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:44]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Mig langar að spyrja aðeins frekar um þetta málefni, um grímunotkun í skólum, og um hvernig ákvarðanir voru teknar um sóttvarnaaðgerðir í menntastofnunum. Þegar við tökum ákvarðanir um fjöldatakmarkanir, fjarlægðarreglur, grímuskyldu, tímabundna lokun og hvaðeina sem kemur við sóttvörnum hefur það óneitanlega önnur neikvæð áhrif sem verður að taka tillit til og meta til móts við sóttvarnaaðgerðir. Það er mikilvægt að stöðva útbreiðslu veirunnar. Það er líka mikilvægt að tryggja aðgengi ungs fólks að námi. Það verður að tryggja jafnvægi á milli þessara þátta og þetta mat verður að liggja fyrir þegar þessar ákvarðanir eru teknar.

Mig langar að spyrja ráðherra aftur: Var markviss kennsla í því fyrir börnin hvernig nota ætti grímurnar rétt í skólunum? Mig langar að spyrja ráðherra hvernig hún hafi tryggt að meðalhófi hafi verið beitt í aðgerðunum þannig að þær gangi nógu langt til þess að vera áhrifaríkar en ekki svo langt að þær séu óþarflega íþyngjandi fyrir námsfólk og námsstofnanir.