151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við fylgjumst mjög vel með andlegri líðan nemenda í gegnum Skólapúlsinn. Við fylgjumst líka vel með því sem er að gerast á leik- og grunnskólastiginu og meðal kennara og höfum gert auknar kannanir til að skoða hver staðan er. Þetta eru ótrúlegir tímar þannig að við viljum hafa upplýsingarnar til taks til að skoða og rannsaka. En það er auðvitað ekki nóg eitt og sér. En það sem ég vildi upplýsa hv. þingmann um er að við erum að fylgjast með þessu. Þegar við tökum ákvörðun um hvort við eigum að tryggja staðnám, og þá með grímu, hef ég sem ráðherra viljað sjá meira staðnám með grímu frekar en að við getum ekki boðið upp á það. Það verður að segjast eins og er að þegar við höfum verið taka ákvarðanir höfum við ekkert verið að velja um endilega bestu sviðsmyndina. Við erum að reyna að gera það besta í þessari þröngu stöðu.