151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Það hefur ekki verið mikið rætt um háskólastigið er í dag. Mig langar að beina sjónum sérstaklega að því. Nú voru að koma út fyrstu tölur úr Eurostudent-könnuninni sem staðfesta það sem síðasta könnun sýndi, að íslenskir háskólanemar stóla allt of mikið á vinnu með námi, allt of mikið. 72% þeirra vinna með námi og telja sig ekki hafa efni á því að vera í námi án vinnu. Þetta er nokkuð sem nýtt námslánakerfi þarf að taka á. Þess vegna hefði verið svo upplagt að búið væri að endurskoða grunnframfærslu námslána fyrir þennan vetur og er miður að það hafi ekki náðst. Út af Covid er það mjög brýnt, þó að það væri bara tímabundið, vegna þess að grunnframfærslan er reiknuð út frá þeirri forsendu að fólk vinni fyrir sér í þrjá mánuði á ári. Þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum og atvinnuleysi stúdenta er algerlega dulið, vegna þess að þeir fá ekki að skrá sig á atvinnuleysisskrá, getur vel verið að það stefni í verulegt hallæri hjá háskólanemum ef þetta er ekki lagað í vetur.

Annað sem mætti skoða og mig langar að nefna við ráðherrann, er að draga einfaldlega úr kröfu Menntasjóðs um staðnar einingar á þessum fordæmalausa vetri, þannig að fólk sem er að berjast við nám í fjarnámi, og tekur þar að auki þátt í þessu erfiða ástandi sem samfélagið er að ganga í gegnum, þurfi ekki ofan á allt annað að hafa áhyggjur af því að hafa ekki í sig og á, bara vegna þess að það nær ekki fullri námsframvindu.