151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Þessar umræður hafa verið mjög gagnlegar. Margt hefur komið fram sem skiptir íslenskt samfélag mjög miklu máli. Að mínu mati skiptir mestu máli að við höldum menntakerfinu gangandi og tryggjum framúrskarandi menntun á þessum erfiðu tímum. Það er hins vegar eitt sem mig langar að nefna sérstaklega og hefur komið fram, en það eru okkar viðkvæmustu hópar, þ.e. þeir nemendur sem búa við aðstæður sem eru kannski ekki eins og best verður á kosið. Ég tel að það sé brýnast að við tryggjum það að við skiljum ekkert barn og ekkert ungmenni eftir út af þessum heimsfaraldri. Við á Íslandi erum í einstakri stöðu til að ná utan um þennan hóp. Við erum búin að fjárfesta í mjög öflugu heilbrigðiskerfi eins og við sjáum, og ég vil þakka öllum sem starfa þar fyrir alla þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig til að vernda líf og heilsu þjóðarinnar. Einnig höfum við byggt upp mjög öflugt menntakerfi, leikskóla, grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólamenntun og símenntun, þannig að við eigum að geta náð utan um þessa stöðu. Við þurfum hins vegar að vakta það mjög vel og ef við sjáum að við getum gert betur eigum við alltaf að koma inn í þá stöðu og gera okkar allra besta. Við eigum frekar að gera meira en minna og það hefur verið leiðarljósið í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég get fullvissað þingheim um að það hef ég hugfast í þessari stöðu.

(Forseti (GBr): Forseti vonar að hið tifandi rauða ljós hafi ekki truflað hæstv. ráðherra, en það er eitthvað að tímaskráningarkerfinu.)