151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

jafnréttismál.

[13:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Já, ég er fullmeðvituð um að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra má sækja rétt sinn. Ég er hins vegar að spyrja hæstv. forsætis- og jafnréttismálaráðherra hvort henni finnist og hvort hún sé sammála hæstv. menntamálaráðherra um að brotið hafi verið á henni og að einhvern rétt sé að sækja.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um ósætti í ríkisstjórninni sem tekur á sig margar myndir. Þegar stjórnarþingmenn eru ekki uppteknir við að gagnrýna meint alræði gegn eigin sóttvarnaaðgerðum þá eru ráðherrar að skjóta hver á annan. Það gerði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra t.d. í fyrrnefndu viðtali á sunnudaginn þegar hún beindi spjótum sínum að ráðningum hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„[Þ]að er fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. […] Það var flutningur sem var ekki einu sinni auglýstur.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvað henni finnist um þessa pillu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Telur hún ráðningarferli sitt við val á skrifstofustjóra jafn vandað og í tilfelli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eða jafnvel bera með sér svæsnari valdníðslu, eins og orð ráðherra í viðtali á sunnudag bera með sér?