151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

greiðsluþátttaka sjúkratrygginga.

[14:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Spurning mín var einfaldlega sú hvort reglugerðin væri nú orðin eins og ráðherra ætlaði og vildi. Það var í fyrsta lagi spurning mín. Í öðru lagi er varla svo að ég vilji fagna þessu svari hæstv. ráðherra því að það hefur komið fram í fyrri fyrirspurnum mínum í þessu máli, bæði haustið 2018 og aftur haustið 2019, að vilji hæstv. ráðherra virðist vera til staðar í þessum efnum. Sá vilji virðist vera til staðar að ríkið og sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði foreldra við tannréttingar barna sem fæðast með þennan fæðingargalla. Mín spurning lýtur einnig að því hvort ráðherra hyggist nýta stjórnunarheimildir sínar gagnvart undirstofnunum sínum í þeim efnum ef ekki er verið að fylgja þeim markmiðum sem ráðherra ætlar í þessu máli og hvernig þá. Eða er ráðherra hreinlega búin að gefast upp í málinu, vegna þess að við erum búin að tala um þetta í þrjú ár? Er hér um endanlega afgreiðslu að ræða, vegna þess að svo sannarlega, og það kemur fram í úrskurði, er meðferðarþörf til staðar?