151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessa fallegu menntastefnu. Það er aðallega ein spurning sem liggur mér á hjarta núna og hefur gert ansi lengi. Talað er um jöfn réttindi barna til náms, heill og hamingju barna okkar og annað slíkt en hvað með ríflega 30% drengjanna okkar sem eru að útskrifast ólæsir? Er engin framtíðarsýn um að breyta í rauninni áherslum í menntakerfinu þannig að börnin okkar séu læs þegar þau eru kannski orðin níu, tíu ára gömul? Hvar er stefna sem segir til um það að börnin okkar eigi ekki að fá viðbótarnámsgögn 10, 11 og 12 ára þegar þau eru ólæs? Hvernig eiga þessi börn möguleika, hæstv. ráðherra, á því að hafa jöfn tækifæri til náms þegar þau eru ólæs?

Þannig að ég spyr: Er ekki eðlilegt að byrja á að byrgja brunninn og byggja grunninn og gera börnin okkar læs? Þá kannski beint í því framhaldi: Er eitthvað undarlegt þó að svona mikið brottfall sé úr framhaldsskóla þegar við vitum að unga fólkið okkar dreymir um að verða eitthvað sérstakt þegar þau verða stór, eins og þar stendur, en þau keyra bara á vegg þegar komið er í framhaldsnám vegna þess að það eru gerðar ríkar kröfur og grundvöllurinn að öllu er að vera læs? Getum við verið sammála um það, hæstv. ráðherra? Það er nú eiginlega þetta sem liggur mér helst á hjarta, að ég vil gjarnan að börnin okkar séu læs.