151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta innlegg og ég er alveg sammála henni. En það er svolítið skrýtið þegar maður fer að spá í í hversu mörgum myndum lesblindan getur birst, það er alveg stórfurðulegt. Maður hefur orðið vitni að því að barn getur lesið á hvolfi en ekki hinsegin. Það getur verið snillingur í ensku og skrifað texta á ensku en á í erfiðleikum með íslensku. Sumir geta lært að lesa með leir, þ.e. með því að leira stafina. Það eru alls konar útgáfur af því hvernig einstaklingar fara að því að læra að lesa. Þess vegna finnst mér t.d. lestrarkerfið, sem við höfum verið með, vera orðið of einhæft. Jú, það nær kannski til stórs hluta af þeim sem eru lesblindir, en það eru alltaf einhverjir sem detta út fyrir vegna þess að kerfið er ekki nógu opið fyrir öllum möguleikum í þeirri tækni sem er til í dag og sem verið er að beita, sérstaklega hvað varðar drengi með lesblindu og hvernig þeir sjá hlutina. Því hefur oft verið haldið fram að mestu snillingar samtímans hafi verið lesblindir, jafnvel með ADHD og allan pakkann, og að þeir hafi öðruvísi þrívíddarskynjun en aðrir, sem hefur líka áhrif. Þetta eru einstaklingar sem hugsa kannski öðruvísi en hinir, en þetta geta verið snillingar. Við verðum líka að átta okkur á því að við gætum misst af algerum snillingum ef við pössum okkur ekki á að hjálpa hverjum og einum.