151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar í stuttu máli aðeins að fara yfir þau atriði sem komu fram í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar. Í fyrsta lagi er það svo að við fjöllum um læsi í menntastefnunni. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er hluti þjóðmenningar okkar að allir geti lesið sér til gagns og gamans.“ — Þá verður mér hugsað til félaga hv. þingmanns sem sagði: Ég ætla ekki að gefast upp varðandi lesturinn fyrr en ég hef gaman af honum. — „Læsi er lykill að lífsgæðum og endurspeglar hæfni fólks til að skynja og skilja umhverfi sitt, náttúru og samfélag á gagnrýninn hátt og eflir það til virkar þátttöku í mótun þess. Lestur er öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er forsenda þátttöku í lýðræðissamfélagi. Þess vegna leggur menntastefna sérstaka áherslu á málskilning, lesskilning, tjáningu, ritun og hlustun og aðgerðir sem miða að því að mæta þeim sem glíma við lestrarörðugleika. Leitast verður við að tryggja virkni alls samfélagsins við að bæta læsi og þá sérstaklega aðkomu heimila, bókasafna, rithöfunda og fjölmiðla.“

Í þessari málsgrein, hv. þingmaður, er verið að fjalla um þessa þætti, m.a. lesblinduna sem flokkast undir lestrarörðugleika. Einnig vil ég nefna að snemmbær stuðningur nær yfir einhverfu, hann nær yfir ADHD, hann nær yfir fleiri þætti. Ég legg gríðarlega mikla áherslu að við náum utan um þessar áskoranir sem komu fram í máli hv. þingmanns.