151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

tafir á aðgerðum og biðlistar.

117. mál
[17:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu að ég lít ekki á krísuástand eins og nú er sem tímapunktinn til að taka ákvarðanir um stefnumarkandi breytingar í heilbrigðiskerfinu. Miklu fremur eigum við að komast í gegnum krísuna, læra af henni og taka síðan ákvarðanir þegar krísan er yfirstaðin.

Ég vil líka benda á það, virðulegi forseti, að þó að það sé mikilvægt að semja við sérfræðinga, auðvitað er það mikilvægt, þá má ekki gleyma því að það að taka ákvarðanir núna, í stöðunni eins og hún er núna, um fleiri valkvæðar aðgerðir úti í bæ, getur mögulega aukið á það álag sem þegar er í opinbera heilbrigðiskerfinu. Þess vegna verður að fara mjög varlega í öll þau skref sem eru tekin. Staðan núna krefst þess að við fókuserum á krísuna, lærum af henni, og eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson hefur nefnt væri í kjölfarið skynsamlegt að skoða (Forseti hringir.) hvað við getum við lært af þessu og með hvaða hætti við getum gert kerfið okkar betra.