151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[15:49]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við fjöllum hér um breytingar á lögum um opinber fjármál, einkum skilyrði sem sett eru varðandi heildarjöfnuð og skuldahlutfall. Sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni styð ég frumvarpið. Hægt er að hafa mörg orð um ríkisfjármálin, um frammistöðu ríkisstjórnarinnar, um það efnahagsáfall sem við erum að glíma við um þessar mundir, og ég mun að einhverju marki gera það í þessari stuttu ræðu minni.

Efnislega er ég sammála því, og tek undir það með umsagnaraðilum, að nauðsynlegt sé að grípa til þeirra ráðstafana sem gert er við breytingar á þessum lögum. Það má svo velta því fyrir sér til framtíðar hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða og endurhugsa þessar leikreglur allar í ljósi þeirrar reynslu sem við erum að fá á þær, bæði í gegnum mikið góðæri, langt og mikið góðæri, við skulum ekki gleyma því, og nú síðast verulega alvarlegt efnahagsáfall sem sagt er af sumum að gerist ekki nema á 100 ára fresti. Það er kannski erfitt að útbúa regluverk sem tekst á við aðstæður sem eru svo sjaldséðar, sem betur fer.

Við í Viðreisn höfum lagt áherslu á það, í gegnum það efnahagsáfall sem hér ríður yfir, að styðja við allar góðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Við sýndum því að sjálfsögðu skilning, sérstaklega í upphafi, að aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri allt endilega fullkomið. En eftir því sem efnahagskreppan hefur dregist á langinn hefur okkur þótt að ríkisstjórnin sé ekki mikið gefin fyrir það, þó að hún tali stundum þannig, að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum, hlusta á góð ráð og taka tillit til þeirra. Ég held að það þurfi mjög langa og ítarlega leit til að finna hvar tillögur stjórnarandstöðunnar hafa beinlínis ratað inn í málatilbúnað ríkisstjórnarinnar. Vissulega, því skal ekki neitað, hafa frumvörp í stöku tilfellum stórbatnað í meðförum þingsins. Í þingnefndunum hafa verið gerðar margvíslegar góðar lagfæringar og þar hefur stjórnarandstaðan ekki látið sitt eftir liggja.

Það er sagt að það sé erfitt að stjórna í kreppu en enn erfiðara að stjórna í góðæri. Ég held að það sannist nokkuð á þeirri ríkisstjórn sem nú situr, að hún réð ekki fyllilega við að stjórna í góðæri, fordæmalausu góðæri, óvenjulöngu góðærisskeiði, alveg fram undir áramótin 2019/2020. Það er því harla merkilegt þegar maður lítur til baka og sér að ekki tókst að halda betra jafnvægi í ríkisfjármálunum en raun ber vitni, ef litið er til ríkisreiknings fyrir árið 2019. Við þurfum að takast á við vandamálið núna en við þurfum líka að horfa til framtíðar. Eins og ég hef áður sagt þá höfum við í Viðreisn lagt áherslu á að stigin yrðu stór skref strax, að peningunum yrði komið þangað sem þeirra væri mest þörf í þessu ástandi og tryggja þyrfti sérstaklega að fólk sem hefur misst vinnuna hefði lífsviðurværi. Það þarf að reyna að gera eins mikið og hægt er til þess að þau fyrirtæki sem orðið hafa fyrir mestum skakkaföllum, einkum í ferðaþjónustu, séu í stakk búin til þess að hefja starfsemi þegar ferðamannastraumur hefst að nýju en enn er þó margt óljóst um það hvenær það getur orðið.

Það þarf ekki síður að huga að framtíðinni þótt maður sé vissulega upptekinn af nútímanum og vandamálum hans. Við þurfum að gera það sem hægt er að gera, m.a. með því að undirbyggja nýsköpun; hagvaxtardrifin fyrirtæki sem gætu sótt á erlenda markaði með hugvit sitt og þjónustu og vörur sem hægt væri að selja úr landi góðu verði og gætu skapað hagsæld fyrir samfélagið í heild og þá starfsmenn sem ynnu við þau fyrirtæki. Þess vegna má ekki gleyma því að undirbyggja framtíðina með því að huga að því með djörfum hætti að efla nýsköpun og leggja fyrir í sjóði sem geta hjálpað fyrirtækjum til að komast á legg, og skoða starfsumhverfi þeirra allt saman.

Það er líka mjög mikilvægt, þegar við horfum til framtíðar, að velta fyrir sér hvernig við ætlum að takast á við það að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum, hvernig við ætlum að ná niður skuldum og á hve löngum tíma. Það getur verið dýrt að skulda og þrátt fyrir að vaxtastig sé mjög lágt um þessar mundir er mjög erfitt að segja fyrir um það hvert vaxtastigið verður til lengri tíma. Þeim mun meira sem maður skuldar, þeim mun meira þarf jú að borga í vexti. Þeim mun meira sem borgað er í vexti, þeim mun minna verður til ráðstöfunar af ríkisfé til að setja í arðbærar framkvæmdir, arðbæra innviði, hugsa um framtíðina og gæta þess að hægt sé að veita alla þá þjónustu sem við erum sammála um að sé í verkahring hins opinbera.

Ég held því að það sé líka afar brýnt að við hugum að því að skoða vendilega allan ríkisrekstur, hvar hægt er að gera betur, hvað hægt er að straumlínulaga, hvar hægt er að ná fram betri afköstum án þess að skerða þjónustu og án þess að ganga of langt í því að leggja auknar byrðar í formi aukins álags á starfsmenn. Þetta þurfum við að gera. Við í Viðreisn erum sannfærð um að þarna sé eftir mörgu að slægjast. Við höfum séð mjög skýr dæmi um það á þessum tímum hvernig hægt er að leita nýrra og annarra lausna til að takast á við margt sem þarf að sinna í daglegu amstri, í fyrirtækjarekstri og annarri þjónustu, t.d. með því að nota tæknina, fjarfundabúnað og annað slíkt. Það sést vel að hægt er að sinna góðri þjónustu, stjórnsýslu, samstarfi — það er meira að segja hægt að sinna nefndastörfum á Alþingi, þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þarf nú til þess — í gegnum þessa tækni. Það er margt sem hægt er að gera og það þurfum við að hafa í huga til framtíðar. Við eigum að vera óhrædd við að velta fyrir okkur hver verkefni ríkisins eru. Er allt sem ríkið og hið opinbera fæst við bráðnauðsynlegt? Ef það er bráðnauðsynlegt getum við spurt okkur: Er bráðnauðsynlegt að ríkið eða opinberir aðilar sinni því eða er hægt að sinna þessum verkefnum með einkarekstri? Jafnvel er hægt að velta því fyrir sér hvort hægt sé að sinna þeim með einkarekstri sem ríkið stendur að einhverju leyti straum af, eins og mörg dæmi eru um. En eftir mun auðvitað alltaf standa alls konar kjarnastarfsemi og alls konar starfsemi sem við flest erum sammála um að eigi að leysa af hinu opinbera og engar deilur um það. En við eigum að vera órög við að skoða þessa hluti vel og vandlega.

Mér fannst rétt að koma inn á efnahagsumræðuna eins og aðrir hv. þingmenn. Hverjum þykir sinn fugl fagur og mér fannst, a.m.k. á orðum einhverra sem tóku til máls, að allt væri nú harla gott og nánast fullkomið og mætti þakka þessari ríkisstjórn fyrir það hversu frábær hún væri. Ég vil ekki draga úr því sem hún hefur gert vel en frábær er hún ekki að mati mínu og margt er svo sannarlega hægt að gera betur. En ég vil líka aðeins velta upp efni frumvarpsins í tengslum við jöfnuð í ríkisfjármálum, skuldasöfnun og það að setja markið við að stöðva skuldasöfnunina 2025 og setja fjármálareglurnar í samband 2026. Ég tek undir það að það er nauðsynlegt að við setjum okkur þessi markmið og stefnum hiklaust að því að ná þeim. Á sama tíma þurfum við líka að vera raunsæ og þess vegna er það mikilvægt, sem fram kemur í þessu lagafrumvarpi, að við ætlum okkur að leggja reglulegt mat á það, m.a. fá fjármálaráði nýtt hlutverk í þeim efnum, hversu raunhæft er að ná þessum markmiðum.

Framtíðin er þess eðlis að hún er í framtíðinni og erfitt að sjá fyrir hvernig hún lítur út, en það er margt sem þarf að hafa í huga. Það þarf t.d. að hafa það í huga — ef það er rétt, sem ég dreg ekki í efa, að efnahagsáfallið sé af þeirri stærðargráðu að það komi upp á 100 ára fresti — hvort hægt sé að ráða við það með sömu gömlu meðulum og áður og hvort það er ofætlan að ná því markmiði að geta greitt niður skuldirnar eins hratt og þarna er lagt til. Ég er ekki alveg viss um það. Það kann vel að vera að það sé hægt, sérstaklega ef okkur tekst að örva efnahagslífið af þeim krafti og djörfung og dug að þar verði verulegur vöxtur og mikil verðmætaaukning sem getur þá orðið til þess að vöxtur samfélagsins, útflutningstekjur, leysi meira og minna úr því að greiða niður þessar skuldir, sem sagt af vextinum, en ekki þurfi að grípa til róttæks og mikils niðurskurðar. Það er að sjálfsögðu ekki gott að draga mjög snögglega úr þeirri þjónustu sem hið opinbera á að veita samkvæmt lögum og þurfa að grípa til mikils niðurskurðar. Það þýðir þó alls ekki það, eins og ég minntist á áðan, að ekki þurfi að endurskoða og skoða mjög vel umsvif hins opinbera og hvernig hægt er að gera enn betur.

Vissulega er víða mjög vel gert en alltaf er rúm fyrir endurbætur og nýja hugsun og nýja starfshætti. Okkur hættir öllum til þess, og það þekkjum við vel á Alþingi, að vilja vera í sömu gömlu hjólförunum og verða frekar stúrin ef á það er bent að kannski væri hægt að sinna því sem við sinnum með betri og skilvirkari hætti. Þá segja menn: Já, en þetta hefur alltaf verið gert svona og það hefur reynst ágætlega og þess vegna er ekki hægt að breyta og bæta. Þann hugsunarhátt megum við ekki hafa. Ég er ekki að fullyrða að hann sé ríkjandi hjá hinu opinbera. Það eru mörg teikn á lofti og það skal lofað sem vel er gert. Rafræn stjórnsýsla og átak í henni er mjög til fyrirmyndar. Þar held ég að hægt sé að gera mun betur, ná góðum árangri, m.a. til þess að snarbæta þjónustuna, bæta aðgengi að henni og draga úr kostnaði.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Verkefnið, þ.e. frumvarpið og það sem í því felst, er allra góðra gjalda vert. Það vekur auðvitað upp ýmsar spurningar um fyrirkomulag þessara mála. Það vekur upp spurningar um efnahagsstjórn liðinna ára og það vekur ekki síður upp margvíslegar spurningar um efnahagsstjórn í framtíðinni.