151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að reyna að komast í andsvar áðan en það var þéttsetið. Ég ætla að byrja á því að segja að mér finnst mjög gott að þetta lagafrumvarp sé komið hingað inn strax. Ég tek undir með hæstv. ráðherra um það og mikilvægt að þingið fjalli um það. Spurningin sem mig langaði að koma á framfæri var hvort ástæða væri til að skoða við þessa endurskoðun að þingið staðfesti reglugerðir. Þó að sóttvarnalög heimili ráðherra að gefa út reglugerðir sem skerða mjög frelsi einstaklinga þá er það gjarnan þannig, ef ég hef skilið fréttir rétt frá nágrannalöndum okkar, að slíkt sé sett á einmitt vegna þess að bráð nauðsyn er á að það taki gildi hið fyrsta en aðkoma þingsins sé með einhverjum hætti til að staðfesta það til lengri tíma. Það var eiginlega spurningin mín og mögulega getur hæstv. ráðherra komið inn á það en ég beini því alla vega til hv. velferðarnefndar að huga aðeins að þeim vinkli.

Að sama skapi velti ég því líka fyrir mér hvernig því er háttað í nágrannalöndunum. Í greinargerðinni er ekki mikið farið í það og ég held að það væri til bóta að nefndin kallaði eftir slíkum upplýsingum. Þá vil ég segja að ég held að það sé bæði kostur en líka galli að við séum að ræða sóttvarnalög í miðjum faraldri. Við eigum auðvitað að nýta kostina, nú kunnum við allt í einu öll alls konar orð og getum sett okkur í áður óþekkt spor, ég hefði ekki getað ímyndað mér fyrir ári síðan allt það sem hér er um fjallað, þannig að það er vissulega kostur. En gallinn gæti líka verið sá að það er allt eins líklegt að næsta veira eða næsta árás, ef svo má að orði komast út af sóttvörnum, verði allt öðruvísi en nákvæmlega sú sem hér um ræðir. Þannig að hv. velferðarnefnd þarf líka að huga vel að því.

Að lokum vil ég bara segja að ég er sammála ráðherra í því að það hefur tekist vel til. Við höfum náð mjög miklum árangri hér á Íslandi í að berjast við þessa veiru. Þrátt fyrir að við höfum staðið frammi fyrir hörmulegum dauðsföllum þá held ég að heilt yfir höfum við náð góðum árangri. Fyrir það ber að þakka. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ýmsar aðrar aukaverkanir koma til vegna þeirra aðgerða sem við höfum þurft að grípa til. Það er eitthvað sem við þurfum að vera mjög vakandi yfir í kjölfarið og svo verðum við líka að vera dugleg að velta upp öllum spurningum og vera óhrædd við að rýna til gagns þær aðgerðir sem verið er að fara í.