151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka sveigjanleika við fundarstjórn. Hv. þingmaður er með vangaveltur varðandi samanburð við önnur Norðurlönd. Hún spyr líka um það hvort ekki sé rétt að Alþingi komi með einhverju móti að staðfestingu reglugerða. Slíkt væri í raun og veru ekki í samræmi við stjórnskipan okkar. Lagagrunnurinn leggur grunninn að reglugerðarheimildum ráðherra í öllum málaflokkum. Þá er litið svo á að þar með hafi Alþingi gefið framkvæmdarvaldinu þann sveigjanleika og það umboð að ljúka við reglugerðir.

Ég ætlaði nú, þar sem ég sat í sæti mínu, að telja hversu margar reglugerðir hafa verið gefnar út í þessum faraldri og þær eru gríðarmargar. Við höfum að jafnaði verið með eina almenna reglugerð og svo aðra um skólahald. Á Norðurlöndunum er ekki svo að þingið hafi aðkomu með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir. Það var raunar svo, mér vitanlega, að í einhverjum Norðurlandanna þurfti að kalla eftir heimildum þingsins til að beita þessum aðgerðum almennt. Þingið hafði ekki á fyrri stigum afgreitt lög eins og sóttvarnalög okkar voru og gáfu okkur tilefni til að starfa samkvæmt. En þingið hefur auðvitað verkfæri. Það getur kallað eftir upplýsingum og skýrslum og auðvitað geta einstaka þingmenn líka komið með hugmyndir og tillögur að lagabreytingum í frumvörpum. En eftirlitsskylda þingsins með því að gætt sé að meðalhófi og jafnræði við beitingu framkvæmdarvaldsins er líka mikilvæg.