151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Já, ég verð nú að viðurkenna það að ég er mjög glöð að við skulum vera að fara að birta þetta á næstu dögum og vonandi fljótlega. Ég tek því virkilega fagnandi og ekki síður að þetta hafi verið tryggt inn í 11. gr. frumvarpsins eins og hæstv. ráðherra bendir á, sem ég tel að sé ákveðin forvörn. Þá er kannski spurningin um hvort kemur á undan, eggið eða hænan. Við erum a.m.k. búin að tryggja okkur í frumvarpinu ef skyldi dragast eitthvað úr hömlu að birta þetta sem ég átta mig ekki á.

En hvað lýtur að því að vera vitur eftir á og annað slíkt þá hef ég nú bara litið á það sem heilbrigða skynsemi hvernig við höfum tekist á við þessa veiru. Það er ekkert að vera vitur eftir á. Ja, vitur eftir á hvað lýtur að því að við erum að sjá hversu gríðarlega alvarlegar afleiðingar þetta hefur haft á samfélagið og þá er ég ekki að tala um ferðaþjónustuna eða þá sem hreinlega hafa misst störfin og annað slíkt heldur hina sem sitja eftir daprir, einangraðir, þunglyndir og í mikilli vanlíðan, heimilisofbeldi vaxandi og annað slíkt.

Ég hefði viljað sjá miklu meiri fjármunum varið í það að taka utan um fólkið okkar sem er að missa atvinnuna. Og þegar við erum að tala um 600 milljarða í skuldasöfnun á næstu tveimur árum hefði ég líka gjarnan viljað sjá greiningu á því hvað við höfum í rauninni hagnast á því að vera — við hljótum öll að sjá það seinna, það er ekki hægt að tala um það núna, við erum enn í auga stormsins þótt við séum í lægðinni núna, ef ég þekki stjórnvöld rétt — en alla vega þá bíð ég eftir því að fá greiningu á því hvaða afleiðingar þetta hefur í raun og veru haft fyrir samfélagið, bæði fjárhagslegar og félagslegar, og þá með tilliti til þess hvernig við höfum verið að haga okkur á landamærunum og hvaða gríðarlegi kostnaður og hvað gríðarlega álag þetta hefur verið á heilbrigðisstéttirnar okkar og annað slíkt.

Það hefði nú verið ofboðslega fallegt ef við hefðum ekki þurft að fylla gjörgæsludeildirnar og allt annað af fárveiku Covid-sjúku fólki. Það hefði verið minn draumur alla vega.