151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni geta stjórnvöld ekki aðhafst neitt nema fyrir því sé grundvöllur í lögum og þess vegna gætum við ekki beitt útgöngubanni núna, vegna þess að það er ekki grundvöllur fyrir því í lögum. Þegar við leggjum þetta til í frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum, þá erum við að leggja til við Alþingi að það setji þennan ramma fyrir stjórnvöld, að þessi heimild sé til staðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þannig að það sé algjörlega á hreinu hvenær má beita því og hvenær ekki. Og ég vil bara nefna það, vegna þess að hér talar fólk eins og alltaf sé hægt að kalla saman Alþingi til að rúlla í gegn einhverjum frumvörpum og sannarlega hefur það stundum tekið óþægilega stuttan tíma að breyta lögum, en við erum að tala um kringumstæður sem eru allt aðrar en þær sem við erum að tala um núna, sem blasa við hér. Samkvæmt ábendingum þeirra sem voru í þessum starfshópi, m.a. frá sóttvarnalækni, frá ríkislögreglustjóra og fleirum, eru þetta til að mynda þau tilvik ef mjög alvarleg og mjög smitandi sýking myndi berast með andrúmsloftinu eða alvarlega eitrun sem breiddist mjög hratt út eða geislavirkni eða annað slíkt. Þá værum við ekki með viðhlítandi lagaheimild til þess að beita útgöngubanni þótt tilefnið væri fyrir hendi.

Ég vil hvetja Alþingi til þess að bera ábyrgð á því núna að setja þennan ramma og setja þessa löggjöf vegna þess að stjórnvöld framtíðarinnar kunna að þurfa á þeirri leiðsögn Alþingis að halda, þó að við sjáum ekki þá stöðu akkúrat núna.