151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er svolítið glúrið að setja upp þrjár sviðsmyndir og ein þeirra er skoðun þingmannsins og hún er farsælust að hans mati. Það gefur náttúrlega augaleið að það þarf að vinna frumvarpið og það þarf að fá þinglega meðferð. Það er ekki ætlan þeirra sem hér stendur að frumvarpið fari í gegnum þingið án þess að um það sé fjallað. Hins vegar tek ég eftir því að hv. formaður velferðarnefndar tekur undir þau sjónarmið sem ég hef haft hér um þetta úrræði stjórnvalda, mögulegt úrræði stjórnvalda í mögulegri framtíð þar sem þessar aðstæður kynni að reka á fjörur okkar, og mikilvægi þess að þingið axli þá ábyrgð að fjalla um þetta vandmeðfarna hugtak og þessa vandmeðförnu valdheimild stjórnvalda í einhverjum þeim kringumstæðum sem við sjáum ekki fyrir akkúrat núna.

Ég vil nefna það við hv. þingmann að þegar fjallað var um frumvarp til sóttvarnalaga á árinu 1997 var í raun verið að fjalla um ákvarðanir eins og samkomubann og annað slíkt sem enginn sá fyrir þá að yrði notað við heimsfaraldur eins og við erum að glíma við í dag, sem er ríflega 23 árum síðar. Ég vil því hvetja þingmanninn til dáða að beita víðsýni sinni og lausnamiðun við að taka þetta hugtak og kanna hvort það sé ekki einmitt rétt núna þegar við erum með Covid-19 yfir og allt um kring til þess að glíma nákvæmlega við þessar heimildir stjórnvalda við mögulegar kringumstæður.