151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

almannatryggingar.

89. mál
[19:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um enn eitt frumvarpið frá Flokki fólksins um fjárhæðir bóta, 69. gr. Því miður verður að segja alveg eins og er að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur brotið á almannatryggingaþegum og á 69. gr. Sá sem kom því inn í á sínum tíma að bætur skyldu fylgja launaþróun var Davíð Oddsson og ef ég man rétt þá sagði hann að þarna væri búið að tryggja það að hækkanir til lífeyrislaunaþega almannatrygginga væru komnar með axlabönd og belti þannig að þeir myndu fá réttláta hækkun. En hvað erum við að tala um á mannamáli að sé þarna í gangi? Jú, í dag er að koma fram að launaskrið er um 6% og rúmlega það. Hvað eiga öryrkjar og eldri borgarar að fá um næstu áramót? Þeir eiga ekki að fá samkvæmt launaþróun, þeir eiga bara að fá 3,6%. Mismunurinn er kominn í 2,4%. Síðast í sérstakri umræðu talaði ég við hæstv. fjármálaráðherra um þessi mál. Þá kom fram að í fjárlagafrumvarpinu reikna þau með launaþróun upp á 5,1%. Ég spurði hvers vegna í ósköpunum væri þá verið að hækka lífeyrisþegana um 3,6%, ef þau reiknuðu sjálf með launaþróun upp á rúm 5%. Skýringin var það sem þau kölluðu kjaraskrið og að það yrði að draga frá. Hugsið ykkur leikþáttinn, hugsið ykkur óvirðinguna. Þau búa til eitthvað til þess að geta dregið það frá þeim sem eru á lægstu lífeyrislaunum á landinu. Þau gera allt til að koma í veg fyrir að fólk sem er að reyna að tóra á 220.000 kr. fái þá hækkun sem það á að fá samkvæmt 69. gr. Ef þetta frumvarp kemst í gegn munum við tryggja því fólki hækkun.

Þetta sýnir svart á hvítu hvernig ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur hagað sér í þessum málum. Ef þær hefðu farið eftir 69 gr. og almannatryggingaþegar hefðu fengið launaþróun, alveg eins og þingmenn og aðrir, þá væri hækkunin ekki undir 30% hjá eldri borgurum og öryrkjum. Myndi þá muna um það í dag? Þið getið bara rétt ímyndað ykkur hvort fólk hafi ekki þörf á því að fá allt að 60.000–70.000 kr. meira útborgað. Það myndi skipta miklu máli. Inn í þetta kemur líka þegar hrunið varð og lækkað var hjá þessu fólki um 10% en því lofað að þau yrðu fólkið sem fyrst fengi leiðréttingu, fyrsta fólkið sem fengi leiðrétt aftur, en það var auðvitað svikið. (Gripið fram í: Það er eina fólkið sem er eftir.) Alltaf situr þetta fólk eftir, alltaf, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn.

Og hvað gera þeir? Jú, þau koma fyrir kosningar, og nú eru kosningar fram undan, með gömlu kosningaloforðin, dusta rykið af þeim, lofa öllu fögru, krónu á móti krónu skerðingu burt. En þau meintu það ekki, þau meintu 65 aura á móti krónu. Nú segjast þau ætla að hækka allt upp úr öllu valdi en þetta fer strax ofan í skúffu eftir kosningar. Og þetta verður nákvæmlega eins þegar næsta ríkisstjórn tekur við af þessari. Hvers vegna? Vegna þess að það er yfirleitt fjórflokkurinn sem fer með völdin.

Það er eiginlega bara sorglegt að hugsa til þess hvernig er komið fram við þennan hóp. Fyrir utan það að við verðum að átta okkur á því í þessu samhengi að árið 1988 var þessi hópur skattlaus. Spáið í það ef hann væri skattlaus í dag og ætti 30% upp í lífeyrissjóð, eins og var á þessum tíma. Spáið í stöðuna. Þá værum við með milli 320.000 og 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust.

Það sorglegasta af þessu öllu er að ef ríkisstjórnin myndi núna strax fara eftir 6% reglunni, setti 6% inn, þá væru þau með axlabönd og belti í keðjuverkandi skerðingum vegna þess að hver króna sem kemur inn fer í það að teljast sem tekjur og tekjurnar skerða eitthvað, t.d. húsaleigubætur og alls konar. Það er alveg ömurlegt að það skuli viðgangast ár eftir ár að búa til svona kerfi, svona gauðslitið, götótt bótakerfi þar sem þau setja eina krónu inn og taka tvær krónur út eða setja eina krónu inn og láta fólk halda að það sé að fá eitthvað en taka svo eina krónu út aftur, þessi króna á móti krónu. Það er alltaf verið að búa til skerðingar. Það er ekki bara inni í almannatryggingum heldur fer þetta líka út fyrir það og yfir til sveitarfélaga, í sérstakar húsaleigubætur sem skerðast líka.

Þetta er ömurlegt kerfi sem hefur verið komið á og er varið af ríkisstjórn eftir ríkisstjórn. Við verðum að breyta því. Það á ekki að koma svona fram við veikt fólk og það er ömurlegt að við komum svona fram við eldri borgarana okkar sem hafa byggt upp landið. Við vitum að það eru margir sem hafa það gott en það afsakar ekki að aðrir hafi það skítt. Við eigum að sjá til þess að fólk geti lifað með sæmd, að það þurfi ekki að svelta, þurfi ekki að fara í biðröð eftir mat og þurfi ekki á nokkurn hátt að vera í þeirri stöðu að eiga t.d. ekki fyrir lyfjum eða læknisþjónustu. Við eigum núna í eitt skipti fyrir öll að hugsa fyrst um fólkið, svo má hugsa um allt hitt.