151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:21]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er ekki að hlaupast undan því að segja hvað við ætlum að gera vegna þess að það er algerlega skýrt. Við höfum ætlað að brúa það bil sem veiran er að mynda í íslensku samfélagi með fjölþættum aðgerðum. Hv. þingmaður viðurkenndi í raun þá stefnu með því að fara síðan að tala um að aðgerðirnar þyrftu að vera aðeins stærri eða aðeins meiri, það þyrfti að breyta þeim aðeins. Verkefnið er að brúa bilið fyrir atvinnulífið, fyrir almenning á meðan veiran gengur yfir. Þetta er ekki varanlegt ástand. Það er það sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með. Stefnan er kýrskýr. Við héldum fyrst að þetta yrði stutt bið. Hún hefur lengst og þess vegna höfum við lengt í aðgerðunum. Þess vegna höfum við komið með nýjar aðgerðir, viðspyrnustyrki, lokunarstyrki o.s.frv. En eru þær aðgerðir þannig að þær nái utan um alla? Það er það sem hefur verið rætt hér undir þeim aðgerðum sem hafa verið til umfjöllunar. Það er umræðan sem er fullkomlega eðlilegt að eigi sér alltaf stað.

Ríkisstjórnin hefur teygt sig vel áfram. Hún hefur teygt sig vel yfir fyrirtækin í landinu til að verja störfin þannig að viðspyrnan geti verið kraftmikil. En er hægt að nefna einhverja hópa þar sem við höfum ekki náð að grípa alveg 100% inn í? Já, það er alveg pottþétt að það er þannig, vegna þess að það er verið að gera þetta allt á miklum hraða. Það er verið að gera þetta allt á miklum hraða, að forma aðgerðir til að grípa inn í og bregðast við aðstæðum hverju sinni.

Stefna ríkisstjórnarinnar er algerlega skýr. Við ætlum að standa með fólki, við ætlum að standa með fyrirtækjum til að brúa þetta bil þar til veiran er horfin úr íslensku samfélagi. Þess vegna erum við með fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir 100 milljarða halla, að við ætlum að nota ríkissjóð til að brúa bilið, hv. þingmaður.