151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Aðeins áfram um þetta bara til að hnykkja á mikilvægi þessa. Með ráðningarstyrkjunum er a.m.k. að einhverju leyti hægt að taka á þeim vanda sem óhjákvæmilega skapast þegar fólk missir vinnuna og hefur ekki lengur þá daglegu rútínu sem skiptir svo miklu máli, að sækja vinnu. Þetta getur einmitt haft mikið að segja, til að mynda þegar nýsköpunarfyrirtæki eru að fara af stað og þurfa kannski smáaðstoð til þess að fara í gang. Mig langar samt í seinni umferðinni að inna hæstv. ráðherra eftir úrræðinu sérstökum stuðningi við tekjulágar barnafjölskyldur. Það er verkefni sem skiptir atvinnuleitendur væntanlega gríðarlega miklu máli vegna þess að gera má ráð fyrir að þar séu lægstu tekjurnar.

Þá langar mig aðeins að heyra ofan í ráðherra, af því að hann nefndi áðan þetta með fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og samtalið sem átt hefði sér stað við sveitarfélögin, að þar skiptir mjög miklu máli að ráðuneytið hafi frumkvæði annars vegar í því að hvetja sveitarfélög til að nota þessi úrræði, en hins vegar líka í því að hvetja sveitarfélög til að skoða og meta hvort fjárhagsaðstoð þeirra sé nægilega ríkuleg, skulum við segja. Af því að eins og fram kom í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur áðan þá er nánast fyrirséð að þeim sem þurfa að leita til sveitarfélaganna með fjárhagsaðstoð mun fjölga. Jafnvel þó að þeir séu eitthvað innan við 1.000 manns sem hafa verið, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, lengur en tvö ár í atvinnuleit, þá mun þessi hópur stækka.