151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Tímans vegna er erfitt að svara öllum þessum spurningum, ég skil það vel. Við verðum kannski að taka bara sérstaka umræðu um hallann á ríkissjóði og hvernig menn hafa hugsað sér að komast út úr honum þegar fram líða stundir. En ég vildi aðeins fara inn á einn lið á bls. 70 í fjáraukanum sem heitir útlendingamál. Þar kemur í ljós að það eigi að hækka fjárframlög til málaflokksins um 412,8 millj. kr. Þetta er verulega há upphæð, einungis 19,1 milljón er vegna Covid-áhrifa. Á öðrum ársfjórðungi 2020 voru umsóknir 20% færri miðað við árið þar áður á sama tímabili. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að umsækjendur árið 2020 verði 90% af fjöldanum þannig að útgjöld til þessa málaflokks eru að aukast á sama tíma og umsækjendum er að fækka. Maður spyr sig, hæstv. ráðherra: Hvernig verður það á næsta ári þegar landið opnar? Er stefna þessa málaflokks hjá þessari ríkisstjórn bara opinn tékki?