151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að lengja þessa umræðu mikið. Ég hef verið að hlusta á umræðuna um frumvarp til fjáraukalaga og fletta í frumvarpinu. Þegar ég var kominn í kaflann um samgöngu- og fjarskiptamál þá sá ég að þar er lagt til að fjárheimild málaflokksins verði aukin um 125,6 millj. kr. Gerð er tillaga um viðbótarframlag að fjárhæð 140 millj. kr. vegna reksturs Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs vegna þess að þar þurfi að fjölga í áhöfn. Það þarf að fjölga um þrjá starfsmenn á hverri vakt sem þýðir að starfsmönnum fjölgar um níu. Það er óhjákvæmilegur kostnaður og er það metið á 140 millj. kr. Aðrar breytingar á fjárheimild málaflokksins eru til komnar vegna endurútreiknings á launaforsendum fjárlaga 2019 og 2020 vegna kjarasamninga sem gerðir hafa verið á árinu 2020. Þetta er bara hið besta mál fyrir þá aðila.

En í því sambandi, þegar ég sá þetta rifjaðist upp fyrir mér fyrirspurn sem ég lagði fram 19. nóvember sl., fyrir nokkrum dögum síðan, til samgönguráðherra um annað samgöngutæki sem er Breiðafjarðarferjan Baldur sem sér um ferðir yfir Breiðafjörð yfir á Brjánslæk. Verið hefur mikil aukning á flutningum, sérstaklega þungaflutningum, með ferjunni yfir Breiðafjörð vegna aukinnar atvinnustarfsemi á Vestfjörðum, sem er mikið gleðiefni. Þungaflutningabílarnir, eða trailerarnir eins og við köllum þá, nota ferjuna mikið til að komast suður, yfir Breiðafjörð. Er það líka vegna þess að samgöngurnar á sunnanverðum Vestfjörðum eru afar slæmar. Reyndar horfir það til einhverra bóta í framtíðinni, en þeir nota ferjuna mikið og hefur komið alloft til þess að skilja hefur þurft eftir trukka sem ekki komast með og er þetta töluvert mikill flöskuháls. Ákall hefur verið eftir nýrri og stærri ferju, bæði frá sveitarfélögum beggja vegna fjarðarins og frá atvinnumálafélagi á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er stórt verkefni sem fara þarf í eins fljótt og hægt er. En þangað til betri lausn fæst þarf að vera hægt að fjölga ferðum. Fyrirspurn mín til samgönguráðherra, sem ég er reyndar ekki enn kominn með svar við, orðaðist u.þ.b. svona: Hvað kostar að fjölga ferðum með Breiðafjarðarferjunni Baldri um tvær ferðir á viku næstu sex mánuðina?

Ég hef það reyndar eftir rekstraraðilum að það gæti kostað um 12–14 milljónir. Það er ekki meiri peningur en það.

Þess vegna kem ég hingað upp til að beina því til hv. fjárlaganefndar að hún taki þetta mál til gagngerrar skoðunar svo laga megi þann flöskuháls sem þessi flutningur yfir fjörðinn er, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, þó að það sé reyndar allt árið, svo hægt sé að koma á fleiri ferðum og losa þennan tappa, sem er staðreynd. Það er okkar stjórnmálamannanna að vinna að bættum samgöngum. Ferjuleiðin yfir Breiðafjörð er þjóðvegur og hún þarf að vera í lagi. Þess vegna legg ég til að fjárlaganefnd taki þetta mál til skoðunar og komi helst með þessa upphæð, sem ekki stór, svo að hægt verði að fjölga ferðum ekki seinna en strax. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en þakka fyrir þessa umræðu og vona að þetta geti gengið.