151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skattleysismörk fyrir erfðafjárskatt voru sett árið 2010 upp á 1,5 milljón kr. og þeim hefur ekki verið breytt í tíu ár. En í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að þetta mark hækki upp í 5 millj. kr. eða um 233%. Önnur viðmið voru sett árið 2010 og er fjallað um þau í þessu frumvarpi. Má þar nefna frítekjumark fyrir launatekjur öryrkja. Það var sett árið 2010 og er rétt tæpar 110.000 kr. á mánuði en ef þessi upphæð hefði fylgt launavísitölu væri hún um 200.000 kr.

Nú er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki gott að láta slík viðmið bíða svona lengi, hvorki viðmið fyrir frítekjumark fyrir launatekjur öryrkja né önnur viðmið. En ég vil spyrja hv. þingmann hvaða rök hann færir fyrir þessari forgangsröðun, að breyta viðmiðunum fyrir erfðafjárskatt um 233%, sem voru sett árið 2010 í 1,5 milljónir kr., en snerta ekki við frítekjumörkum fyrir launatekjur öryrkja sem einnig voru sett árið 2010. Er þetta ekki forgangsröðun sem er svolítið bjöguð og þyrfti að endurskoða innan ríkisstjórnarinnar?