151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með honum þegar hann segir að það sé svona platleikur þegar talað er um að lækka skatta og tekjuskatturinn lækkaður, en gjöldin eru síðan hækkuð á móti fyrir alls konar þjónustu sem nauðsynleg er. En hv. þingmaður talaði hér um áfengisgjaldið og það er sannarlega þannig að krár og veitingahús eru í miklum vanda út af þessum heimsfaraldri og fulltrúar þeirra hafa komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Og ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að í framsögu þeirra hafi komið fram að ákall um lækkun á áfengisgjaldi komi frá stjórnmálamönnum í grunninn, en það myndi ekki bjarga stöðu þeirra eða veita þeim mikla viðspyrnu að sleppa við þessi 2,5% af áfengisgjaldinu. Í rauninni er staðan sú að ýmist eru þeir með lokað og enginn getur komið og keypt hjá þeim áfengi eða slíkt eða örfáir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þessi aðgerð muni ekki nægja og muni í rauninni ekki skila neinu og það sé betra að fara aðrar leiðir til að styðja við veitingastarfsemina. Það er nauðsynlegt að gera það því að sannarlega viljum við ekki koma út úr heimsfaraldri og geta ekki farið út að borða eða skroppið á öldurhús með vinum okkar.