151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:58]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög auðvelt og gleðilegt í rauninni að fá að skýra þetta út. Nú eru Píratar mjög frjálslyndir og vilja í rauninni ekki stýra fólki, vilja að fólk sé frjálst til að gera það sem því sýnist en að fyrirtæki séu bundin af reglum. Höfum í huga að kolefnisgjald er fyrst og fremst gjald á fyrirtæki og hegðun þeirra. Kolefnisgjald sem neyslustýring og hegðunarmótandi álögur á fyrirtæki er mjög jákvætt sem er ástæðan fyrir því að talað hefur verið fyrir því að auka það í gegnum tíðina. Það er ekki bara álit mitt, það er álit fjölmargra annarra. Svo að ég leyfi mér að taka nokkur dæmi þá hafa forsvarsmenn margra fyrirtækja í orkugeiranum úti um allan heim talað fyrir þessu gjaldi, t.d. maður að nafni Anthony Earley hjá PG&E, einnig Gérard Mestrallet hjá Engie, stærsta orkufyrirtæki í Evrópu, og Eldar Sætre hjá Statoil sem reyndar heitir núna öðru nafni. Í samantekt Alþjóðabankans um þetta mál eru þeir meðal þess fólks sem vinnur hjá olíufyrirtækjum og orkufyrirtækjum sem talaði fyrir kolefnisgjaldi af þessu tagi, einmitt til að stýra neyslu fyrirtækja. Ég nefni þessi dæmi vegna þess að það eru ekki bara umhverfisverndarsinnar og aðrir slíkir sem vilja þetta heldur er þetta beinlínis ákall frá orkufyrirtækjunum sjálfum sem vilja fara frá því að eyðileggja umhverfið með þeim hætti sem við höfum verið að gera viðstöðulaust frá því að Edwin Drake fann olíuna í fyrsta sinn. Það er full ástæða til að fara að leggja af þeim vonda ósið.