151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þessa máls mæla fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021. Hún hljóðar svo:

„1. gr. orðist svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ráðherra skal endurskoða fjárhæð og tilhögun kolefnisgjalds skv. I. kafla með hliðsjón af skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun, frá júní 2020 og leggja fram lagafrumvarp eða gera Alþingi grein fyrir þeirri endurskoðun eigi síðar en 1. mars 2021.“

Þannig hljóðar tillagan. 1. gr. eins og hún stendur núna í frumvarpinu falli því brott og gjaldið hækki því ekki um áramót.

Ég vil hér, herra forseti, nú þegar ég hef mælt með þessari breytingartillögu, fara aðeins yfir kolefnisskattinn sem samkvæmt frumvarpinu kemur til með að hækka um áramótin. Við þekkjum það að þessi skattur er tiltölulega nýr hér á Íslandi og hann er lagður á jarðefnaeldsneyti og á að draga úr útblæstri og hvetja til orkuskipta í samgöngum. Hann á að hækka um áramótin og verður 11 kr. og 75 aurar á hvern lítra af dísilolíu og 10 kr. og 25 aurar á hvern lítra af bensíni. Það hefur síðan áhrif til hækkunar verðbólgu eins og margt annað í þessu frumvarpi. Það vekur okkur til umhugsunar um það hvers vegna það er alltaf ríkisvaldið sem gengur fram fyrir skjöldu með það að hækka ýmsar gjaldskrár sem hækka síðan verðbólgu og þar með lán landsmanna og margt fleira. Hækkun skattsins hefur líka áhrif á flutningskostnað og hækkar um leið verð á vöru og þjónustu.

Það er alveg ljóst að þessi skattur hefur hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum skilaði þessi skattur 3,5 milljörðum á ári í ríkissjóð. Á þessu ári eru það rúmir 6 milljarðar, eða u.þ.b. 6,1 milljarður, nánast helmingshækkun. Þessi hækkun hefur neikvæð áhrif fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu og það er búið að sýna fram á það með skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út í júní. Það er einkum tvennt sem gerir það að verkum að þessi skattur er að mínum dómi ósanngjarn og í raun stefnulaus. Hann er ósanngjarn vegna þess að honum er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og bitnar sérstaklega á efnaminna fólki, eins og fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar, og landsbyggðinni. Í öðru lagi er hann stefnulaus vegna þess að hann er settur í þágu loftslagsmála, til að uppfylla skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, en skatttekjurnar eru ekki merktar aðgerðum í loftslagsmálum sérstaklega og aðeins hluti þeirra rennur þangað. Umhverfisráðherra hefur viðurkennt, í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi, að ekki sé hægt að segja til um hvaða árangri skattheimtan skilar.

Hagfræðistofnun gaf út skýrslu um eldsneytisnotkun heimilanna og það er margt athyglisvert í henni. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það vekur nokkra undrun mína hversu litla athygli þessi skýrsla hefur fengið og hversu litla athygli fjölmiðlar hafa sýnt henni. Ef ég dreg niðurstöðurnar í skýrslunni, sem ég er með hér, saman í fjóra liði þá segir að skatturinn bitni á efnalitlu fólki og hafi neikvæð áhrif á kjör þeirra og neyslu. Ég hjó sérstaklega eftir því að einn hv. þingmaður hér áðan í umræðunni, Smári McCarthy, taldi að skatturinn biti ekki nógu fast. Hann er greinilega þeirrar skoðunar að hann eigi að bíta enn þá fastar á efnalítið fólk. Það er umhugsunarefni. Síðan kemur einnig fram í skýrslunni að rökstyðja þurfi það betur hvers vegna skatturinn er lagður á. Í þriðja lagi segir í skýrslunni að skatturinn þurfi að vera mjög hár til að virka. Við sjáum náttúrlega hvaða afleiðingar það myndi hafa ef hann yrði hækkaður verulega. Í fjórða lagi segir í skýrslunni að landsframleiðsla og atvinna minnki eftir að kolefnisskattur er lagður á.

Ég get ekki séð annað, herra forseti, en að þessi skýrsla sé áfellisdómur yfir kolefnisskattstefnu ríkisstjórnarinnar og staðfesti það sem Miðflokkurinn hefur alltaf sagt um þennan skatt. Að mínum dómi, herra forseti, er ekki forsvaranlegt að leggja skatt á almenning með þessum hætti þegar árangurinn er mjög óljós og hann bitnar verst á tekjulágu fólki og íbúum á landsbyggðinni. Þess vegna er þessi breytingartillaga lögð fram um að það verði einfaldlega farið nákvæmlega yfir þennan skatt og fjármála- og efnahagsráðherra skili niðurstöðum úr þeirri rannsókn og skoðun 1. mars á næsta ári.

Ég vil næst víkja að breytingum á sóknargjöldum í frumvarpinu eins og kveðið er á um í 26. gr. Það vekur náttúrlega athygli að á þessum tímum, þegar stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að verja bæði fyrirtæki og einstaklinga í því mikla tekjufalli sem margir hafa orðið fyrir í faraldrinum, þá skuli gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 1.080 kr. á mánuði á næsta ári fyrir hvern einstakling. Það er reyndar samkvæmt breytingartillögu, það varð örlítil hækkun frá því sem var í frumvarpinu með þessari breytingartillögu sem mælt var fyrir í dag. Gjaldið átti í raun aðeins að hækka um 5 kr. samkvæmt frumvarpinu, úr 975 í 980 kr. Ég fagna því að sjálfsögðu að ríkisstjórnin sé að stíga þetta litla skref í rétta átt. En niðurstaðan er hins vegar að það er verið að skerða sóknargjaldið þrettánda árið í röð og það er kjarni málsins. Áfram skal því, samkvæmt þessari tillögu, gengið í sjóði trúfélaganna með því að skerða með valdboði lögmæt félagsgjöld. Trúfélögin munu því enn eitt árið verða fyrir tekjufalli þar sem tekjurnar verða aðeins um helmingur af því sem þær ættu að vera samkvæmt lögum. Það hefði því sannarlega mátt ætla að hér væri ekki síður tilefni til ákveðinna björgunaraðgerða eins og staðan er gagnvart ýmsum í þjóðfélaginu og er full þörf á. Sóknargjaldið verður samkvæmt frumvarpinu, eins og áður segir, 1.080 kr. á mánuði á næsta ári en ætti að vera 1.815 kr. ef lögum um sóknargjald hefði verið framfylgt.

Þetta er niðurskurður sem hófst árið 2009 og hefur eiginlega engan enda tekið síðan og er algerlega úr takti við aðrar aðgerðir sem gripið var til eftir bankahrunið. Um þessa staðreynd er í raun enginn ágreiningur enda hafa tveir starfshópar, skipaðir af innanríkisráðherra, og raunar ýmsir aðrir sérfræðingar sem ráðherrar hafa kallað til, staðfest það með óyggjandi hætti að trúfélögin hafi orðið fyrir meiri skerðingu en nokkrir aðrir aðilar í þeim neyðarráðstöfunum sem gripið var til eftir bankahrun, auk þess sem slíkum ráðstöfunum er auðvitað löngu lokið gagnvart öðrum aðilum en þeim er haldið áfram gagnvart sóknargjaldinu. Alls nemur uppsöfnuð skerðing sóknargjalds á þessum þrettán árum rúmum 16 milljörðum kr. Það munar sannarlega um minna enda samsvarar þessi upphæð heildarframlagi úr ríkissjóði til Landhelgisgæslunnar síðastliðin þrjú ár. Þetta gríðarlega tekjufall fyrir trúfélögin hefur orðið til þess að margar sóknir landsins eru einfaldlega komnar að fótum fram fjárhagslega. Lítið eða ekkert viðhald hefur verið á mörgum kirkjum og safnaðarheimilum í rúman áratug þannig að nú eru víða komin upp vandamál vegna leka, myglu og annarra afleiðinga af vanræktu viðhaldi. Sömuleiðis hefur víða dregið verulega úr öllu starfi og þjónustu vegna fjárhagsþrenginga safnaðanna og það á sama tíma og opinberir aðilar beina sífellt fleirum til kirkjunnar í von um að félagsleg og fjárhagsleg aðstoð sé í boði þegar stofnanir hafa ekki önnur ráð. Nú er jafnvel svo komið að sóknirnar fá ekki einu sinni lán eða aðra fyrirgreiðslu, eins og t.d. skuldbreytingar, í viðskiptabönkunum þar sem söfnuðirnir teljast ekki lengur traustir viðskiptamenn vegna bágs fjárhags. Það má því segja að þeim séu allar bjargir bannaðar.

Margoft hefur verið við því varað á liðnum árum að í þessar aðstæður stefndi en viðbrögð stjórnvalda hafa því miður verið lítil sem engin og einu viðbrögðin hafa í raun verið þau að benda söfnuðinum ár eftir ár á að beita aukinni hagræðingu til að bregðast við þessum aðstæðum. Það ætti að vera öllum ljóst að það getur enginn hagrætt ár eftir ár í þrettán ár til að mæta því að tekjurnar hafi að lokum lækkað um helming eins og nú er orðið. Slík hagræðing leiðir að lokum aðeins til niðurskurðar á mikilvægum verkefnum, vanskilum og niðurníðslu fasteigna svo eitthvað sé nefnt.

Hvað skyldi annars vera til ráða þegar söfnuðum, í kjölfar niðurskurðar liðinna ára, er enn eitt árið ætlað að lifa á nánast óbreyttum tekjum þrátt fyrir hækkuð laun, hækkaðan tilkostnað og áframhaldandi óbreyttar vaxtagreiðslur af lánum? Ýmsir halda því fram að hér sé bara allt með felldu og ríkisvaldið geti bara ákveðið það sjálft á fjárlögum hvaða fjármagni skuli varið til þessa málaflokks en sé slíku haldið fram þá má því miður segja að með alvarlegum hætti sé horft fram hjá mikilvægum staðreyndum um raunverulega stöðu sóknargjaldsins. Þar er ekki um framlag ríkisins til trúfélaga að ræða, eins og oft er látið í veðri vaka, heldur er hér um að ræða skil ríkisins sem innheimtuaðila á innheimtum félagsgjöldum trúfélaga.

Til að útskýra þetta er nauðsynlegt að rifja upp að þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp árið 1987 vildi ríkisvaldið útrýma svokölluðum nefsköttum, sem áður voru innheimtir af gjaldheimtum sveitarfélaganna. Þær voru við þessar breytingar lagðar niður. Því var kirkjunni og öðrum trúfélögum gert það tilboð að ríkið skyldi taka að sér að innheimta sóknargjöld og skila þeim síðan til réttra aðila sem tilteknu hlutfalli af tekjuskatti, nákvæmlega með sama hætti og ríkisvaldið tók að sér við þessa breytingu að innheimta útsvar fyrir sveitarfélögin. Var þetta fyrirkomulag síðan fest í lög með gildandi lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.

Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir að það meginsjónarmið hafi verið haft við tillögugerðina að trúfélögin haldi tekjustofnum sínum óskertum miðað við það sem þau hafi áður haft. Jafnframt sé mikilvægt að reglur sem settar verði tryggi stöðugleika á tekjustofnum þeirra. Þá segir í greinargerðinni að kostir þeirrar leiðar sem valin var við að reikna út og skipta umræddum gjöldum séu einkum þeir að hún sé einföld í framkvæmd, hún tryggi til frambúðar stöðugleika á umræddum tekjustofnum og fylgi tekjubreytingum. Þetta auðveldi trúfélögunum að áætla tekjur sínar og byggja fjárhagslegar áætlanir á þeim.

Í framsöguræðu með frumvarpinu tók ráðherra sérstaklega fram að með þessari breytingu væri ekki um að ræða neina breytingu á þeirri staðreynd að hér væri um að ræða félagsgjöld trúfélaganna sem ríkið tæki nú að sér að innheimta. Upphæð sóknargjaldsins var síðan reiknuð inn í heildarálagningu opinberra gjalda með nákvæmlega sama hætti og gert var með útsvarið og hefur verið innheimt samkvæmt því alla tíð síðan.

Nú blasir hins vegar við að við þetta fyrirkomulag, sem tekið var upp árið 1987, hefur ekki verið staðið hvað sóknargjaldið varðar frá árinu 2009, heldur hafa allir samningar sem þar lágu að baki verið brotnir og loforð svikin. Staðreyndin er með öðrum orðum sú að skil ríkisins á innheimtum sóknargjöldum hafa verið skorin þannig niður að ríkið stendur trúfélögunum aðeins skil á rétt rúmlega helmingi þeirra sóknargjalda sem innheimt eru. Afgangurinn er hreinlega látinn renna í ríkissjóð og verður það að teljast nokkuð rausnarleg innheimtuþóknun, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sumir vildu jafnvel taka sér í munn mun sterkari orð um þetta framferði og halda því fram að hér hafi verið farið ófrjálsri hendi með sjóði trúfélaganna. Núverandi fjármálaráðherra komst m.a. þannig að orði, í samtali árið 2013, að hér væri í raun um ígildi fjárdráttar eða þjófnaðar að ræða.

Það hlýtur að vera skýlaus krafa trúfélaganna að þessi mál verði skoðuð í alvöru og síðan gengið til samninga um að leiðrétta a.m.k. eitthvað af þeirri skerðingu sem orðin er. Vart verður því trúað að stjórnvöld ætli sér í alvöru að leggja starfsemi trúfélaganna nánast niður eins og nú virðist stefna í og stefna með því trúfrelsi í landinu í hættu. Breytingartillagan sem var lögð fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar er lítið skref í rétta átt en er engan veginn fullnægjandi. En það er jafnframt nauðsynlegt að leiðrétta þrettán ára skerðingu á lögmætum félagsgjöldum sem ríkisvaldið hefur tekið að sér að innheimta.

Að þessu sögðu, um sóknargjöldin og nauðsyn þess að leiðrétta þau í eitt skipti fyrir öll, ætla ég að víkja í lokin, herra forseti, aðeins að erfðafjárskattinum. Ég vil hrósa fyrir það að hér sé verið að gera breytingar á honum í rétta átt. Erfðafjárskattur er skattur þar sem verið er að greiða skatt af fjármunum sem þegar er búið að greiða skatta af. Þeim sem auðnast að skilja eftir einhverjar veraldlegar eigur fyrir afkomendur sínar eftir andlát hafa á lífsleiðinni greitt skatta af þessum sömu eignum. Þetta vita allir. Það eru gömul sannindi og ný í skattamálum, bæði í nútíð og fortíð, að fólk sættir sig við að greiða sanngjarna skatta en kemur sér helst undan því ef skatturinn er ósanngjarn. Auðvitað á að stefna að því að lækka skattprósentuna niður í 5% óháð sifjatengslum. Við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á þetta. Einnig er nauðsynlegt að skoða skattalega meðferð á fyrirframgreiddum arfi. Það er orðið sífellt algengara að arfur sé fyrirframgreiddur. Þessi breyting er skref í rétta átt, frítekjumarkið er hækkað, og vissulega ber að þakka fyrir það. En betur má ef duga skal.

Mikilvægara er þó að velta fyrir sér stóru spurningunni um það hversu sanngjörn innheimta erfðafjárskatts er yfir höfuð. Fyrir liggja fjölmargar skoðanir um skattheimtu á Vesturlöndum og það er sama hvar er spurt; alls staðar telur almenningur að erfðafjárskattar séu þeir ósanngjörnustu sem ríkisvaldið leggur á. Erfðafjárskattur er ósanngjarn, einfaldlega út frá almennum viðmiðum um sanngirni í skattheimtu. Í honum felst tvísköttun. Það er verið að skattleggja það sem fólk á að loknu ævistarfi og það er búið að greiða tekjuskatt og virðisaukaskatt af upphæðunum og eignarskatt alla sína ævi. Það er verið að skattleggja metnað fólks, skattleggja það sem það hefur eignast á ævinni fyrir vinnusemi og ráðdeild og lagt sitt fram til hagkerfisins og samfélagsins, greitt það sem því bar og alið önn fyrir fjölskyldunni. Það er ósanngjarnt að skattleggja sérstaklega fyrir að hafa náð árangri í lífinu. Þess vegna eigum við að stefna að því að lækka þessa skattheimtu enn frekar.

Ég segi að lokum, herra forseti, að margt annað hefði ég viljað fara yfir í þessu frumvarpi en tímans vegna verður það að bíða þar til síðar.