151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[19:13]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Meðan hann var að tala þá varð mér hugsað til þess þegar ég fyrir ansi mörgum árum hætti að reykja. Mér tókst loksins að hætta að reykja þegar ég fór að nota nikótíntyggjó. Og allt í einu langaði mig bara ekkert í sígarettur lengur og ég tuggði bara þetta tyggjó alveg baki brotnu, en vaknaði hins vegar upp við það einn góðan veðurdag að ég var orðinn enn þá háðari þessu tyggjói en sígarettunum áður og það tók mig mörg ár að venja mig af því.

Mér virðist kannski eins og við Íslendingar séum á nikótíntyggjóstiginu í þessari baráttu. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður sé mér sammála um það. Það var eiginlega ekki fyrr en ég vandi mig af nikótíntyggjóinu — það var það erfiðasta. Þar voru sársaukamörkin. Ég velti fyrir mér hvort við þurfum ekki hugsanlega að ganga í gegnum dálitla erfiðleika í þessari baráttu til að geta virkilega komist á beinu brautina. Hvort íslenska stjórnkerfið einkennist ekki enn þá í þessum málaflokki af einhvers konar hálfvelgju, einhvers konar svona hiki. Ef við líkjum stjórnkerfinu við bílvél, hvort allir partarnir séu að vinna saman til að fara í sömu átt eða hvort það séu einhverjir partar í þessari vél sem eru ekki alveg með á nótunum og séu á bremsunni og vilji draga í aðra átt. Ég bið hv. þingmann að afsaka allt þetta líkingamál.