151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[19:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því verður ekki neitað að við Íslendingar erum að einhverju leyti þrælar þeirrar miklu ímyndarsköpunar og ímyndarsmíðar að hér sé hreinasta samfélag á jörðu, hér sé loftið hreinna en annars staðar, náttúran hreinni en annars staðar, og þar fram eftir götunum. Afleiðingin af þessu hefur kannski verið ákveðin værukærð í íslensku samfélagi og ákveðin sjálfumgleði og ákveðin von um að þetta komi bara einhvern veginn af sjálfu sér, vegna þess að hér sé svo hreint samfélag að þessi skipti muni bara einhvern veginn gerast sjálfkrafa, sem er aldeilis öðru nær. Þess vegna hefur það dálítið setið á hakanum að byggja upp þetta mikla net sem þarf að vera á rafhleðslustöðvum.

Mig langar í seinni spurningu að beina því til hv. þingmanns hvort hann telji að það sé möguleiki með núverandi stjórnarmynstri að hrófla eitthvað við þessu. Hvort það sé hugsanlegt að sjá fyrir sér einhverjar umbætur eins og núverandi stjórn er skipuð. Hvort þessir flokkar séu líklegir til þess að standa fyrir þessari stórfelldu uppbyggingu og ráðast í þær miklu aðgerðir sem ráðast verður í ef við eigum að komast á beinu brautina þar.