151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

ferðagjöf.

377. mál
[18:17]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir ánægju minni með að verið sé að lengja það tímabil sem almenningur hefur til að notfæra sér hina svokölluðu ferðagjöf. Ég hef frá upphafi verið mjög hrifin af þeirri hugmynd, finnst hún snjöll, dálítið falleg útfærsla og falleg leið til að bregðast við því ástandi sem hér er í efnahagslífinu og þarf svo sem ekki að orðlengja um frekar, við þekkjum öll hverjar þær aðstæður eru. Ég hefði við þetta tilefni, nú þegar ljóst er að verið er að lengja þetta tímabil, þar sem efnahagslegir erfiðleikar hafa dregist á langinn, getað séð fyrir mér að samhliða því að lengja tímabilið hefði mátt hækka upphæðina. Síðan þetta frumvarp varð upphaflega að lögum höfum við séð betur hverjar afleiðingarnar eru, annars vegar fyrir stöðu einstaklinga, í samhengi við atvinnuleysistölur og annað því um líkt, og hins vegar hvað varðar fyrirtækin og atvinnulífið.

Hæstv. ráðherra nefndi réttilega að hluti skýringarinnar á því að enn eru útistandandi ónýttar ferðagjafir — og ég er sammála hæstv. ráðherra um þær ástæður — felst í því að samhliða sóttvarnaaðgerðum fækkar tækifærunum til að notfæra sér gjöfina, tækifærunum til að ferðast um landið o.s.frv. En það er mitt sjónarmið að góður bragur hefði verið á því að hækka upphæðina samhliða því að lengja tímabilið.

Markvissari stuðningur við fjölskyldur hefði líka getað verið fólginn í því að aldursviðmiðin hefðu verið önnur. Ég hefði viljað sjá þá útfærslu að við færðum aldursviðmiðin neðar en í núgildandi löggjöf og værum með því að færa fjölskyldufólki, foreldrum með börn, fleiri ferðagjafir til að notfæra sér. En í grunninn og í öllum meginatriðum er ég ánægð með þessa löggjöf ráðherra. Eins og ég sagði í upphafi fannst mér þessi leið til að bregðast við erfiðum og þungum aðstæðum, þessi leið til þess að vera með hvetjandi aðgerðir, bæði vera klók og falleg. Mér finnst þetta falleg hugmynd en hefði viljað sjá hæstv. ráðherra stíga stærri skref við þetta tilefni, hækka upphæðina, fara t.d. upp í 10–15 þús. kr. og horfa kannski sérstaklega til þess nú yfir vetrarmánuðina, og í aðdraganda jóla, að í því gæti verið fólgin gjöf til fjölskyldna. Við sjáum æ betur að ferðaþjónustan hefur sannarlega orðið fyrir ævintýralega þungu höggi en einnig hefði mátt líta til þess að aðrar greinar hafa mátt þola erfiðleika. Þessi löggjöf hefur náð víðar en til ferðaþjónustunnar einnar. En ég hefði getað séð það fyrir mér að þarna hefði mátt veita menningarstarfsemi og listum betri stuðning með því að breikka gildissvið gjafarinnar.