151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir prýðisgóða ræðu. Það var mjög áhugavert að hlusta á hv. þingmann og margt sem kom þar fram sem mér þykir oft vanta inn í umræðu um mál tengd umhverfismálum. Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í eru fyrri tilraunir til að fá afnumin lög um skyldu til að blanda lífeldsneyti í eldsneyti. Þingmaðurinn ýjaði að því hér áðan að kannski væri kominn tími á að leggja það mál fram aftur. Ég lýsi því hér með yfir að ég yrði mjög tilkippilegur að vera meðflutningsmaður á slíku máli. Ég held að það sem hv. þingmaður kom inn á sé angi af stærra máli, en það er að í umhverfismálunum er endalaust af málum þar sem meiningin er góð en leiðirnar sem valdar eru að markinu einhvern veginn það sem oft er kallað „virtue signalling“ á ensku. (SÁA: Dyggðaflöggun.)Dyggðaflöggun á íslensku. Þakka þér fyrir, hv. þingmaður, ég mundi ekki íslenska orðið. En hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að okkur gæti auðnast að stíga til baka og fara að einbeita okkur meira að því sem skilar árangri gagnvart því sem skiptir máli en setja minni orku í svona dyggðaflöggunarmál, burt séð frá efnisatriðum þessa máls? Það ætti auðvitað að vera miklu umfangsmeiri nálgun. Og hvernig getum við komið okkur yfir á þann stað að aðgerðirnar sem gripið er til skili árangri gagnvart því sem skiptir máli (Forseti hringir.) en ekki bara þannig að þessi góða meining og góða upplifun, að gera eitthvað til gagns, sé í forgrunni?