151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:09]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Framsögumaður nefnir að það sé ljóst að menn séu ekki að uppfylla lögin eins og þau eru orðin með þessari skyldu um kynjaskiptingu. Þá liggur beinast við að spyrja hv. framsögumann hvort það hafi verið farið í einhverja rannsókn við meðferð þessa máls á því af hverju það sé nú, hverju það sæti að fyrirtæki uppfylli þetta ekki og hvort þeirri spurningu hafi verið velt upp hvort það geti verið þannig, það sé einhver möguleiki á því að ástæðan fyrir því að ekki öll fyrirtæki uppfylla þetta sé sú að þau hreinlega geti það ekki. Kann það að vera möguleiki? Eða heldur framsögumaðurinn að þetta sé allt saman samsæri gegn konum og menn vilji ómögulega hafa konur í stjórnum þessara fyrirtækja? Er ekki einhver möguleiki á því að það sé sumum fyrirtækjum ómögulegt til lengri eða skemmri tíma að uppfylla þetta ákvæði? (Forseti hringir.) Þess vegna var ákveðið í upphafi, þegar lögin voru sett, að hafa einmitt ekki sektarákvæði í lögunum.