151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er skemmst frá því að segja að umræður um málið á vettvangi nefndarinnar hafa síst verið of miklar og hafa snúið að öðrum þáttum, eins og kemur kannski fram í breytingartillögum meiri hlutans þar sem fjallað er um orðalagsbreytingar í samræmi við það sem nú tíðkast í þeim efnum. En ég verð að leyfa mér að segja að málið hefur farið í gegnum nefndina að því leyti til að þarna hafa, af hálfu minni hlutans, verið settar ákveðnar skorður. Það var gert með beiðni um að fá lögfræðilega skoðun á málinu og það eru þær spurningar sem ég fjallaði ítarlega um, og svör Stefáns Más Stefánssonar. Þær lúta að því hvernig þetta mál sé samræmanlegt grundvallarsjónarmiðum í félagarétti og eignarrétti. Það er auðvitað á ábyrgð flutningsmanna að fjalla um það sem fram kemur í frumvarpinu varðandi einhverjar athuganir í Noregi eða tölur frá Noregi. Það er ekki mitt eða okkar minnihlutamanna að fjalla um það. Það verður að inna meiri hlutann, sem stendur saman að meirihlutaálitinu, eftir því. Það er öll nefndin, að frátöldum tveimur þingmönnum sem eru undir á þessu minnihlutaáliti. Og mér láðist að nefna að undir minnihlutaálitið rita sá sem hér stendur, Ólafur Ísleifsson, og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson.