151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma var ég afar efins um að það ætti að skylda fyrirtæki til að hafa jöfn kynjahlutföll. Ég taldi að þau ættu að gera þetta sjálf. Það var sett tímabundið ákvæði og við fylgdumst vel með því hvernig fyrirtækið svöruðu því svigrúmi sem þau fengu til þess að bæta kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Vel að merkja, við erum ekki að tala um lítil og meðalstór fyrirtæki heldur fyrirtæki með 50 manns og stærri. Það gerðist ekkert. Stóra myndin var sú að það gerðist ekkert. Það gerðist ekkert fyrr en að fyrirtækin voru þvinguð til að beita kynjavinklum þegar kom að vali í stjórnir fyrirtækja af þessari gráðu. Það er mér mikið umhugsunarefni, af því að frelsið er mér svo dýrmætt, frelsi skiptir okkur svo miklu máli upp á framþróun í samfélaginu, upp á lífsgæði fyrir okkur Íslendinga, þegar ég fæ það á tilfinninguna eftir að hafa hlustað á umræðuna í máli þar sem bara konur eru flutningsmenn og það eru meira og minna bara karlar úr Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum sem hafa komið hingað upp og mótmælt þessu og borið fyrir sig frelsisfánann — sem er ekkert annað en kjaftæði. Að mínu mati er frelsi þar sem er jafnrétti. Þar sem er ekki jafnrétti er ekkert frelsi. Þar af leiðandi verður ekki framþróun og dínamík í íslensku samfélagi, ef við gætum ekki að því að stuðla að, þar sem við getum eftir ráðum og dáð, jöfnum rétti karla og kvenna, jöfnum rétti kynjanna hvar sem er, hvenær sem er. Þetta er ein leið til að fara. En mér finnst erfitt að hlusta á það. Ég er í andsvari við hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson og spyr hvort hann telji jafnréttismál vera forræðishyggju, af því að hann sagði: Þetta mál er ekkert annað en forræðishyggja. Hann er með fyrirvara á nefndarálitinu. (Forseti hringir.) Það er rétt að draga það fram að allir karlkyns þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru með fyrirvara, eðlilega, þetta er jafnréttismál og þá eru þeir með fyrirvara. (Forseti hringir.)

En ég vil spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann jafnréttismál, baráttu fyrir jafnrétti og (Forseti hringir.) auknu frelsi kynjanna þannig að þau standi jafnt, vera forræðishyggju?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk sem eru tvær mínútur.)