151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:19]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, jafnréttismál eru ekki forræðishyggja enda hef ég lagt mikla áherslu á þau í gegnum tíðina, hvort sem er á Íslandi eða erlendis, og talað um árangur okkar í jafnréttismálum og hversu gríðarlega miklu máli það skiptir fyrir okkur á Íslandi, á atvinnumarkaði og annars staðar. Undirstaðan fyrir góð lífskjör á Íslandi er hvað við erum öflug í jafnréttismálum. Það sem ég er að benda á almennt með forræðishyggju í þessu máli eins og mörgum öðrum er að það er verið að flækja löggjöf, sem er til staðar og er nokkuð skýr, með því bæta lögum ofan á hana, bæta við fleiri lögum og flækja löggjöfina. Það er ekki annað sem ég er að tala um. Og þetta á nú oft við í þessum ágæta sal, forræðishyggjan ræður oft í löggjöf. Ég er bara segja að í þessu máli erum við með löggjöf, ég benti á hana, lög um ársreikninga og fleiri lagabálka og í þessu máli erum við nánast búin að ná öllum markmiðum. Það sem við þurfum m.a. að bæta í nefndinni, eins og hefur komið fram í dag, er að fylgjast með því hvernig þetta hefur virkað. Miðað við það sem hefur komið fram í þessari umræðu og ef allt er rétt sem hefur verið sagt hér þá erum við nánast komin alla leið. Upplýsingar sem við fengum bara rétt fyrir þessa umræðu á þingi sýna að það er orðið stutt í land að við náum þeim markmiðum sem eiga við. En það er bara þannig í grunninn að löggjöfin er til staðar sem nær yfir og ætti að ná þeim markmiðum fram sem við erum að ræða í þingsal í kvöld.