151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Nefnt var fyrr í þessari umræðu að þingið hefði sýnt mikinn styrk í sóttvarnamálum öllum saman á þessum fordæmalausu tímum, hvernig þingið hefði tekist á við þau mál. Það má í sjálfu sér taka undir það að nokkru leyti. Í þessu sambandi verður að nefna þinglokasamninga. Ég verð að segja af því tilefni að það kom mér á óvart það sem eftir stendur í þeim, að ekki hafi verið kveðið fastar á um sóttvarnaaðgerðir og þá þætti alla saman. Hér eru til umfjöllunar breytingar á sóttvarnalögum, sem ég hefði haldið að lægi nú töluvert á að afgreiða, þannig að það kom mér á óvart að það skyldi ekki vera meira til umræðu í þessum samningum sem hér hafa verið í gangi.

En allt að einu þá liggur fyrir að á morgun tekur gildi ný reglugerð um sóttvarnaaðgerðir sem gildir til 12. janúar, og er það nú með því lengsta sem reglugerðir af þessu tagi hafa gilt. Hún hefur vakið mikla athygli og orkað tvímælis, svo ekki sé meira sagt, reglugerðin sem tekur gildi á morgun, og vakið athygli fyrir ósamræmi. Ég held að ég geti alveg fullyrt það hér að fleiri en ég hafa bent á það ósamræmi sem hér er og óskýrleika í ákvörðunum sem teknar voru með þessari reglugerð. Í þessari viku tók einnig gildi svokallaður litakóði almannavarna, nýtt fyrirbæri sem kveður á um ástandið í sóttvörnum hér á landi. Það vekur mikla furðu að ástandið, eins og því er lýst með reglugerðinni og þeim miklu og hörðu aðgerðum sem kveðið er á um að verði í gildi til 12. janúar, sé mjög alvarlegt miðað við þennan litakóða, að hér sé mjög alvarlegt ástand uppi. Ísland allt saman er rautt. Á þessu hefur ekki fengist nokkur viðhlítandi skýring, sem ég held að Alþingi ætti að kalla eftir frá sóttvarnayfirvöldum og heilbrigðisráðherra sem fyrst áður en helgin og jólin ganga í garð.