151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[16:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vildi, í tilefni af ummælum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sérstaklega, nefna að á þeim tíma sem ég var varaforseti fyrir allnokkru síðan kom það afar oft fyrir að maður þurfti að banka í bjöllu og gera athugasemdir við orð þingmanna þegar forseta fannst þeir fara yfir strikið að einhverju leyti. Ég myndi segja að oft hafi orðið af því einhver orðaskipti milli þingmanna og forseta og þess vegna finnst mér viðbrögðin við þessari tilteknu athugasemd forseta hér áðan einhvern veginn alveg út úr öllu korti.

En varðandi það sem mér finnst skipta meira máli þá mótmæli ég því aftur og iðulega, og aftur og aftur ef ég fæ tækifæri til, að hér hafi málfrelsi þingmanna verið skert eða lýðræðið hafi með einhverjum hætti verið takmarkað í þinginu þótt menn hafi hugsanlega reynt að skipuleggja sig þannig að ekki væru fleiri hér í húsinu á hverjum tíma en nauðsynlegt er til þess að halda uppi störfum. Menn hafa getað skráð sig á mælendaskrá og tekið þátt í þeim umræðum sem þeir vilja.