151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[11:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021. Í 14. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, segir að ráðherra skuli leggja fram á Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir næsta almanaksár á fyrsta fundi haustþings, sem var sett þann 1. október. Í fjárlagafrumvarpi er leitað heimilda til útgjalda eftir málefnasviðum og málaflokkum og til hvers konar skuldbindinga A-hluta ríkissjóðs.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið ítarlega kynningu á því hjá fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins auk þess sem fulltrúar allra annarra ráðuneyta komu á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir málefnasviðum og málaflokkum sem undir þau heyra. Auk þess komu fjölmargir umsagnaraðilar á fund nefndarinnar og eru þeir taldir upp fremst í nefndaráliti meiri hlutans. Allir fundir nefndarinnar voru fjarfundir.

Ef við miðum við árið í fyrra, 2019, þegar við afgreiddum fjárlög 27. nóvember, má segja að fjárlagavinnan hafi tafist þetta árið. Ýmislegt má draga fram og flestum er það kunnugt. Við byrjuðum seinna þar sem óhjákvæmilegt var að endurskoða fjármálastefnu í samræmi við lög um opinber fjármál. Af því leiðir að nefndin hefur fjallað um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp samhliða. Auk þess að afgreiða frumvarp um að framlengja tímabil til að aftengja fjármálareglu 7. gr. laga um opinber fjármál í þrjú ár til viðbótar þar sem lögin heimila og frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings þá er fimmta fjáraukalagafrumvarp ársins til umfjöllunar í nefndinni. Þess utan hefur auðvitað verið mikill erill, bæði í ráðuneytum og á þingi, við undirbúning, vinnu við og afgreiðslu mótvægisaðgerða.

Ég vildi draga þetta aðeins saman, virðulegi forseti, og um leið þakka hv. fjárlaganefnd fyrir þolinmæði og þrautseigju og umburðarlyndi fyrir til að mynda laugardagsfundum. Ég hygg að vinna fjárlaganefndar á þessu ári hafi verið mjög sérstök eins og hjá fjöldamörgum öðrum aðilum sem eru að upplifa þessa furðulegu tíma.

Fjárlagavinnan hefur markast mjög af því ástandi sem við erum að kljást við vegna heimsfaraldursins. Það endurspeglast í þeim breytingum sem við leggjum til á milli umræðna. Þær eru óvenju umfangsmiklar, bæði í fjölda og í fjárhæðum. Í sérstökum skjölum gerir meiri hlutinn breytingartillögur við sundurliðun 1, sem er að finna á bls. 20 í frumvarpinu, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins. Nettóbreytingin þar er 162 millj. kr. til lækkunar. Af þeirri tölu má sjá að þetta eru óverulegar breytingar í öllu samhengi, sérstaklega miðað við þær breytingar sem hér eru lagðar til á útgjöldum.

Þrátt fyrir lækkun tryggingagjalds um 4 milljarða kr., sem er tímabundin lækkun gjaldsins og er meðal aðgerða til að byggja upp stöðugleika vegna lífskjarasamninga, er tekjuskattur einstaklinga að hækka en tekjuskattur lögaðila að lækka. Við erum því að horfa svolítið á innbyrðis breytingar. Sérstakur fjársýsluskattur lækkar og fjármagnstekjur lækka, tekjur af virðisaukaskatti lækka og samtals er gert ráð fyrir að skatttekjur og tryggingagjöld lækki um 3,2 milljarða kr. Á móti vegur að gert er ráð fyrir að aðrar tekjur ríkissjóðs hækki um 3 milljarða, aðallega vegna hækkunar veiðigjalds vegna fiskveiða og fiskeldis, um 2,8 milljarða kr., úr 5 milljörðum í 7,8 milljarða kr. Þá er áætlað að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 765.618,2 millj. kr. eða 25% af vergri landsframleiðslu.

Þá gerir meiri hlutinn breytingartillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefnasviða eftir málaflokkum, sem er að finna í frumvarpinu á bls. 26. Samtals nema þessar tillögur í fjárhæðum 55,728 milljörðum kr. til hækkunar gjalda eða 33,6% af vergri landsframleiðslu. Borið saman við breytingar á gjaldaramma milli umræðna á milli ára er um verulegar breytingar að ræða. Árið 2018 voru breytingar frá frumvarpi til fjárlaga 1,1 milljarður, 800 milljónir 2019 og svo var um að ræða lækkun um 1,4 milljarðar 2020. Nú nema breytingartillögur fjárheimilda samtals 55,728 milljörðum króna. Þetta er ótrúlegur munur á breytingum ef við berum saman við undangengin ár. Heildargjöldin verða þá, þ.e. frumgjöldin, 1.030.860,6 millj. kr. eða 33,6% af vergri landsframleiðslu. Vaxtajöfnuður er neikvæður um tæpa 55 milljarða eða 1,8% af vergri landsframleiðslu. Heildarafkoman verður neikvæð um tæpa 320 milljarða. Það rúmast innan þess óvissusvigrúms sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn samkvæmt þessu verður um 10,4% af vergri landsframleiðslu. Í töflu á bls. 2 í nefndaráliti má síðan glöggva sig betur á þessum tölum og þar eru settar fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sundurliðuð samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.

Í nefndaráliti meiri hlutans fjöllum við um verklag nefndarinnar og rekjum vinnu hennar frá því að Alþingi afgreiddi þingsályktun um að endurskoða fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Það er mikilvægt að halda til haga tímalínunni í þessu þar sem fylgt er forskrift laga um opinber fjármál. Sökum heimsfaraldurs kórónuveiru voru allar meginforsendur stefnunnar brostnar. Því samþykkti Alþingi að fresta skyldi framlagningu fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 og það fram á fyrsta samkomudag reglulegs Alþingis að hausti. Því hefur nefndin haft bæði málin samhliða til umfjöllunar. Þetta er auðvitað ekki alveg í samræmi við hringrásarferli stefnumörkunar í uppleggi laga um opinber fjármál en efnahagsleg óvissa kom í veg fyrir að hægt væri að leggja fram raunhæfar áætlanir fyrir þingið og því samþykkti þingið sérstaklega í júní síðastliðnum þetta tímafrávik. En ég vil árétta það að fjármálaráð hefur lagt áherslu á í sínu áliti um endurskoðun stefnu að mikilvægt sé að komast sem fyrst í þann farveg að nýju sem við köllum hringrásarferli stefnumörkunar.

Í stefnunni var miðað við að halli á rekstri A-hluta ríkissjóðs gæti numið 9% af vergri landsframleiðslu árið 2021 og halli sveitarfélaganna um 1%, auk þess sem samþykkt var sérstakt óvissusvigrúm sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu. Óvissusvigrúmið gefur þá um 90 milljarða kr. sem hugsanlegt frávik frá grunnáætlun opinberra fjármála. Með þeim tillögum til aukningar útgjalda sem gerðar eru í breytingartillögum með áliti þessu er ljóst að hallinn verður meiri og gengur inn á u.þ.b. helming óvissusvigrúms.

Auk umsagna um frumvarpið sjálft bárust nefndinni ýmis erindi og óskir sem fólu í sér beiðni um stuðning, hreinar fjárbeiðnir eða viðbótarframlög. Nefndin fylgdi því verklagi að áframsenda slíkar beiðnir til ráðherra málaflokksins. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra, sem fram kemur helst í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál, á þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir hann heyra. Þá hefur nefndin í ríkari mæli en áður kallað eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum með umsagnaraðilum. Tíðkast hefur að senda skriflegar fyrirspurnir og beiðnir um minnisblöð og hefur sá háttur verið hafður á eins og áður.

Nefndin sendi spurningalista til allra ráðuneyta þar sem kallað var eftir frekari upplýsingum, gögnum og rökstuðningi. Sameiginlegar spurningar til allra ráðuneyta sneru að því hvernig markmið og mælikvarðar nýtast til að forgangsraða verkefnum viðkomandi ráðuneytis. Það má lesa það saman við 20. gr. laga um opinber fjármál. Þessar spurningar sneru að því hvernig markmið og mælikvarðar nýtast til að forgangsraða verkefnum viðkomandi ráðuneytis, að sundurliðun á aðhaldskröfu fjárlaga, að þróun verkefnis um endurmat útgjalda, að fjölda starfa sem tengjast fjárfestingarátaki stjórnvalda og að tengslum velsældarmarkmiða við stefnumörkun málefnasviða.

Svör ráðuneyta benda til þess að töluvert hafi áunnist við að tengja saman markmið, árangur og fjárveitingar á undanförnum árum. Stöðugt er unnið að því að tengja betur saman markmið og útgjöld einstakra málefnasviða í þeim tilgangi að hafa gleggri sýn á tilurð útgjalda og útgjaldaþróunina og til að hafa mælistiku á þann árangur sem stefnt er að.

Verkefnið um endurmat útgjalda er í mótun en aðferðafræðin að baki því endurmati gengur út á kerfisbundna greiningu fjárveitinga með það að markmiði að gera kleift að forgangsraða takmörkuðum fjármunum, en jafnframt að vinna skipulega að hagræðingu og bættri þjónustu. Þessi nálgun er í samræmi við áherslur alþjóðastofnana. Meiri hlutinn telur að skoða eigi hvort endurmat útgjalda eigi ekki að ná yfir allt sviðið og hætta alfarið með almennar aðhaldskröfur. Þess í stað verði jöfnum höndum, miðað við mælikvarða, lagt mat á útgjöld málefnasviða og náð fram hagræðingu með þeim hætti. Það sem gæti fallið undir aðhald í rekstri beindist að einstökum stofnunum, og markmið um slíkt aðhald kæmi frá stofnununum sjálfum í samráði við ráðherra málaflokksins. Nánar er fjallað um þessa aðferðafræði í fjármálaáætlun og velsældaráherslurnar sem lagðar eru til grundvallar. Ég geri ráð fyrir því, virðulegur forseti, að í síðari umræðu um fjármálaáætlun verði fjallað nánar um þessa þætti.

Meiri hlutinn dregur fram að mikilvægt sé að tengsl fjárveitinga og umfangs þurfi að vera skýrari sem þýðir með öðrum orðum að breyturnar verð og magn stýri för. Að því leyti þurfum við að styrkja upplýsingakerfin og bæta stjórnendaupplýsingar þannig að handhægt sé að draga fram lykilupplýsingar á bak við tölurnar og að markmið og mælikvarðar kalli það fram. Samhliða þessari aðferðafræði þurfi að leggja svolítið mikla vinnu í það að bæta kerfin, eins og á við í svo mörgu öðru.

Heildarstefna og markmið eins og við lesum í þessu hringrásarferli stefnumörkunar, þar sem ríkisstjórn leggur fram sína stefnu og í kjölfarið áætlun og á því byggja fjárlög, eru ávallt skýr og vel fjallað um í greinargerð frumvarpsins. Það má segja, virðulegi forseti, að þar birtist m.a. þær umbætur sem rammi laga um opinber fjármál hefur leitt af sér.

Við upphaf kjörtímabilsins var sterk staða ríkissjóðs nýtt til þess að halda áfram að lækka skuldir hans auk þess sem svigrúm var nýtt til þess að setja aukna fjármuni í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála og samgöngumála. Þá var fylgt eftir metnaðarfullum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum og framlag lagt fram til að lenda kjarasamningum með endurskoðun skattkerfa og lækkun skatta. Má þannig segja að hagvaxtarskeið undanfarinna ára hafi verið nýtt til þess að styrkja þjónustu og efla meginkerfin og framlög þannig aukin til flestra málefnasviða allt kjörtímabilið.

Ég vil vekja athygli þeirra sem hafa nefndarálit meiri hluta undir höndum á töflu þar sem dregin er saman útgjaldaþróunin á öllum málefnasviðum á kjörtímabilinu, frá 2017–2021, þ.e. að meðtöldum þeim fjárlögum sem við erum að fjalla um. Það er býsna athyglisverð framsetning vegna þess að það er raungildisaukning á nánast öllum 35 málefnasviðum og það veruleg, enda lagði hæstv. ríkisstjórn upp með það að bæta upp innviðaskuldina, sem við nefnum oft því nafni, sem við höfum safnað undangengin misseri. Það speglast svo sannarlega í þessum tölum.

Allar meginforsendur fjármálastefnu brustu á vormánuðum eins og við þekkjum. Í nýrri stefnu er lögð ofuráhersla á að mæta þeirri niðursveiflu, snögga skelli og djúpu kreppu sem fylgdi. Fjárlagafrumvarpið 2021 markast mjög af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum kreppunnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir nú og tímabundið. Markmið stjórnvalda er að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að vinna bug á þeim erfiðu aðstæðum sem þjóðin stendur andspænis. Áhrifin koma skýrt fram á bæði tekju- og gjaldahlið.

Markmið ríkisfjármálastefnunnar eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi að grípa til kröftugra mótvægisaðgerða til að vega upp á móti efnahagslegum áhrifum sóttvarnaaðgerða. Það má segja að þegar við skoðum breytingartillögurnar upp á 55 milljarða sem eru lagðar fram á milli umræðna, þá eru þær mestmegnis Covid-tengdar aðgerðir. Í öðru lagi að leyfa svokölluðum sjálfvirkum sveiflujöfnurum að virka til fulls til mótvægis við niðursveiflu í hagkerfinu. Það gerist sjálfkrafa með auknum útgjöldum, til að mynda vegna atvinnuleysisbóta og í formi minni skatttekna. Í þriðja lagi hefur ekki verið dregið úr opinberri þjónustu þrátt fyrir tekjutap ríkissjóðs. Þvert á móti hefur stuðningur aukinn til mótvægis.

Allar þessar aðgerðir stjórnvalda, virðulegi forseti, miða að því, og má kalla það leiðarljós við þessar tímabundnu krísuaðstæður, að lágmarka áhrif faraldursins á efnahag fyrirtækja og heimila. Þetta birtist glögglega í frumvarpinu sjálfu þegar við berum saman útgjöldin í því við fjárlög liðins árs. Þar horfum við á 118 milljarða aukningu eða 115% aukningu. Þessi aukning hefur á tímabili laga um opinber fjármál, ef við skoðum það tímabil — önnur tímabil eru illa samanburðarhæf nema með mjög mikilli aðlögunarvinnu og talnafimleikum og við höfum tekið upp staðlana IPSAS og GFS — fyrir árin 2018, 2019 og 2020 verið í kringum 55 milljarðar. Þannig að við erum að tvöfalda þá fjárhæð og 15% betur. Það er mjög glöggt hver fyrirheitin eru; að koma okkur út úr þessum aðstæðum. Við erum alla jafna að skoða IPSAS-grunninn, þ.e. rekstrargrunn sem við þekkjum úr hefðbundnu bókhaldi, og þá er fjárhæðin eins og við lesum hana í fjárlagafrumvarpinu, ekki þó í 1. gr., 124,5 milljarðar kr. Hér erum við að bera saman tímabil óvenju mikillar útgjaldaaukningar á rammafjárlögum á milli ára eins og taflan sýnir, sem ég vísaði í áðan. Það er óvenju mikil útgjaldaaukning á þessu tímabili öllu á flestum málefnasviðum. Þannig að tölurnar eru að segja okkur að við erum í mikilli krísu og við erum að bregðast við með mjög öflugum hætti. Það er erfitt að færa rök gegn því. Það má skýrt sjá þegar við skoðum útgjaldaþróunina í töflunni sem meiri hlutinn setur fram í áliti sínu.

Meiri hlutinn gerir þessum breytingum skil í nefndaráliti, þ.e. hvernig útgjaldarammar breytast eftir tilefnum. Einfalda myndin væri að segja að útgjöld hækki óhjákvæmilega vegna launa, verðlags, gengis og hagrænna og kerfislægra þátta Það eru um 40 milljarðar. Nú er ég að horfa á þessa 124 milljarða og breytinguna milli ára, frá því sem alla jafna er á bilinu 50–60 milljarðar en er nú 124 milljarðar. Auk þess eru útgjöld tengd ákvörðunum stjórnvalda sem þegar lágu fyrir og óháð Covid um 20 milljarðar. Þá erum við að horfa á þessa hefðbundnu tölu, milli 50 og 60 milljarða, frá fjárlögum til frumvarps. Þetta eru dæmi eins og bygging nýs Landspítala, það er ákvörðun sem þegar var búið að taka, lenging fæðingarorlofs, ný hjúkrunarheimili, aukin framlög í ofanflóðasjóð, niðurgreiðsla flugfargjalda innan lands, nýtt hafrannsóknaskip, jöfnun dreifikostnaðar raforku, farsæld í þágu barna og ég gæti nefnt fleira. En meiri hluti 180 milljarða útgjalda með breytingartillögum er vegna Covid, u.þ.b. 120 milljarðar.

Skiljanlega er heimsfaraldur ráðandi í þessum fjárlögum en það er mikilvægt að missa ekki sjónar á því hvar við erum og hvert við stefnum með ríkisfjármálin vegna þess að við erum að horfa á tímabundið ástand. Covid gengur yfir og það er mikilvægt að útgjöldin séu sem mest tímabundin og til mótvægis við faraldurinn og til þess fallin að spyrna okkur af stað að nýju.

Meiri hlutinn setur því útgjaldaþróunin fram í töflu, eins og ég vísaði til áðan, rammasett útgjöld á kjörtímabilinu 2017–2021. Sú tafla er á föstu verðlagi ársins 2021. Þessa töflu er að finna á bls. 8 í nefndaráliti meiri hlutans.

Í upphafi kjörtímabilsins var mörkuð sú stefna að efla verulega velferðarkerfið, bæta mjög í innviðafjárfestingar og endurskoða skattkerfið auk þess sem sett voru metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Í samræmi við þetta hafa framlög til langflestra málefnasviða aukist jafnt og þétt í takt við aukið svigrúm til útgjaldavaxtar. Þannig má segja að ávöxtun langs hagvaxtarskeiðs hafi markvisst verið varið til að lækka skuldir, styrkja opinbera þjónustu, þétta félagslegt stuðningsnet og lækka skatta. Við sjáum það nú, virðulegur forseti, hversu mikilvægt það var að leggja áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs, þrátt fyrir útgjaldaþróunina, ellegar værum við ekki í færum til að koma jafn kröftuglega á móti hagsveiflunni og raun ber vitni. Heildarhækkunin er mikil að raungildi eða 26,5%. Við erum að tala um tæpa 200 milljarða, þ.e. 20% af heildarumfanginu. Þetta eru rammasett útgjöld, ég ítreka það. Það þýðir að vaxtagjöld, lífeyrisskuldbindingar, varasjóður er ekki inni í þessu. En það skiptir auðvitað mestu máli í hvað er verið að setja þessa aukningu. Það má sjá skýrt. Í heilbrigðismálum erum við búin að bæta varanlega inn í kerfið 25 milljörðum, í samgöngu- og fjarskiptamál 23 milljörðum. Svo er örorka og málefni fatlaðs fólks 20 milljarðar, 16 milljarðar í fjölskyldumál, 14 milljarðar í málefni aldraðra, 11 milljarða raunhækkun í nýsköpun og rannsóknum og þróun. Það er 74% raungildisaukning. Þá fara rúmir 10 milljarðar varanlega til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa.

Í fjárhæðum talið kemur mesta hækkunin fram hjá veigamiklum sviðum heilbrigðis- og félagsmála, sem fyrir eru mjög há í fjárhæðum talið. Mest eru það 25 milljarðarnir sem fara í sjúkrahúsþjónustuna, því næst 23 milljarðar til samgöngu- og fjarskiptamála, 19,5 milljarðar vegna örorku og málefna fatlaðs fólks, 15,5 milljarðar vegna fjölskyldumála, 13,9 milljarðar vegna málefna aldraðra og 10,2 milljarðar vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Það er 11 milljarða raunhækkun á málefnasviði nýsköpunar og rannsókna. Þetta er athyglisverð aukning. Hlutfallsleg aukning til samgönguinnviða er 49% raungildisaukning. Til umhverfis- og loftslagsmála er um að ræða 40,8% raungildisaukningu. Þetta er hvort heldur sem er í fjárhæðum eða hlutföllum gríðarlegu aukning.

Ég held, ef það mætti gagnrýna eitthvað, að við höfum farið á ystu nöf í að auka útgjöld á liðnum árum. Það verður hins vegar að segjast á móti að það þurfti víða að bæta í. Það er erfitt á sama tíma að segja að við hefðum ekki þurft að taka til hendinni við uppbyggingu og viðhald samgangna eða setja meira í heilbrigðiskerfið. Þetta er auðvitað, horft inn í framtíðina, það sem þetta snýst um, að feta þá línu að halda ekki svo að sér höndum í útgjöldum að við göngum ekki á innviðina og söfnum ekki of miklum skuldum og við höfum í huga að ríkisfjármálin verði til lengri tíma alltaf sjálfbær.

Efnahagslegar forsendur frumvarpsins grundvallast á þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hún kom fram í október og það kemur ekki ný spá fyrr en á nýju ári. Þar er gert ráð fyrir 7,6% samdrætti í vergri landsframleiðslu á árinu en 3,9% hagvexti á næsta ári. Meginforsendur frumvarpsins eru að ekki þurfi að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða á næsta ári og að við náum tökum á faraldrinum og hingað til lands komi 900 þúsund ferðamenn. Það eru forsendur þess að þetta gangi allt saman eftir.

Það er ljóst að framleiðslusamdrátturinn í hagkerfinu er snöggur og mikill, allt að 300 milljarða framleiðslutap. Mér er til efs að við höfum nokkurn tímann séð svo snöggan skell og vonandi aldrei aftur. Ný hagspá kemur ekki fyrr en á nýju ári en framvindan hefur verið heldur verri en vonir stóðu til. Hertar sóttvarnir síðustu mánuði frá því frumvarpið var unnið hafa aðeins dregið úr þeirri bjartsýni sem við leyfðum okkur að hafa hér í lok sumars. Þetta má sjá í öðrum spám, til að mynda spáir Seðlabanki Íslands að samdráttur verði fyrir þetta ár 8,5%, sem er verra en í forsendum frumvarpsins. Þá lækkar það grunninn og dregur heldur úr þegar við förum að horfa á viðspyrnuna. Seðlabankinn segir jafnframt að batinn á næsta ári verði heldur hægari eða 2,3%, en Hagstofan segir 3,9% sem er forsenda frumvarpsins. Ég ætla þó að segja hér að það er ástæða til bjartsýni að því leyti að viðspyrnustyrkirnir, sem verið er að leggja fram í breytingartillögum og eru stór hluti af þessum 55 milljörðum, eiga að fleyta mörgum áfram og yfir hjallann. Það er á sama tíma verið að kaupa bóluefni fyrir 1,5 milljarða kr. Það er tímanna tákn og hillir í viðspyrnuna.

Ég hef áður sagt í þessari ræðu að þessi fjárlög markist mjög af Covid-19. Lagt hefur verið fjárhagslegt mat á bein áhrif á afkomu ríkissjóðs og setur meiri hlutinn það fram í töflu á bls. 10. Hún gefur ágætisyfirlit yfir þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og er verið að ráðast í. Í þessari töflu er þó ekki það sem við vísum til sem sjálfvirkra sveiflujafnara. Þar má nefna aukningu atvinnuleysisbóta um hátt í 30 milljarða. Beinar aðgerðir koma fram bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga. Heildaráhrifin af samdrættinum á hið opinbera og hagkerfið í heild, heimilin og fyrirtækin eru svo margfalt meiri en þetta.

Fjármál sveitarfélaga voru nokkuð rædd í tengslum við fjárlagavinnuna. Sveitarfélögin sinna auðvitað ekki einvörðungu mikilvægri grunnþjónustu heldur vega þau u.þ.b. þriðjung af heildarumfangi ríkissjóðs. Það er mikilvægt að þau hafi styrk til að mæta niðursveiflunni þannig að við getum sem heild beitt opinberum fjármálum í þágu almennra hagstjórnarmarkmiða. Til að tryggja það og stuðla að öflugri hagstjórn hins opinbera er samstarfsvettvangur um reglubundið samstarf skrifaður inn í 11. gr. laga um opinber fjármál. Við gerð fjármálaáætlunar 2021–2025 var gert samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, undirritað af beggja hálfu, og þar er fjallað m.a. sérstaklega um þá óvissu sem við er að eiga. Báðir aðilar eru sammála því að bregðast við út frá þeirri þróun sem verður. Ég hvet samráðsvettvang og aðila sem vinna með þessi mál að fylgjast vel með og standa við þessa yfirlýsingu um að bregðast við. Þetta er mikilvægt, virðulegur forseti, og við verðum að treysta á þessa samvinnu. Mikilvægast er að við getum beitt opinberum fjármálum af krafti fyrir viðspyrnuna.

Almennur stuðningur ríkissjóðs við hagkerfið mun gagnast sveitarfélögunum og tekjur þeirra vegna þess dragast minna saman en ella. Staða sveitarfélaganna er sannarlega misjöfn og þau sveitarfélög sem metin hafa verið að fari verr út úr niðursveiflunni í ferðaþjónustu hafa hlotið sérstakan stuðning úr ríkissjóði. Í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga, sem ég vísaði hér til, undirrituðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra yfirlýsingu þar sem m.a. kemur fram að veitt verði aukaframlag til málefna fatlaðs fólks, sem er mjög mikilvægur liður í þjónustu sveitarfélaganna, fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga og sérstuðningur til þeirra sveitarfélaga sem standa verr. Ég ætla ekki að þylja allt það upp sem fram kemur í þessari yfirlýsingu en þetta eru svona stóru liðirnir. Þar er jafnframt farið yfir þær fjölmörgu aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til og koma sveitarfélögunum til góða. Mikilvægast er þó inntakið í þessu, vil ég segja, að ríkisstjórnin muni áfram fylgjast með þróun í fjármálum sveitarfélaga í góðri samvinnu við þau og það tryggt, eftir því sem fram vindur og fjárhagsupplýsingar liggja fyrir, að sveitarfélögin geti sinnt þeirri mikilvægu nærþjónustu sem þeim er falið að sinna lögum samkvæmt.

Nú eru rúmir tveir mánuðir síðan hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp og mælti fyrir því. Auðvitað ríkir enn töluverð óvissa um efnahagsþróunina og við bíðum nýrrar efnahagsspár frá Hagstofunni, skoðum að sjálfsögðu samhliða aðrar spár sem koma fram en það hefur gengið verr að ná tökum á faraldrinum en vonir stóðu til og svartsýnni sviðsmynd að raungerast sem hefur kallað á sterkari viðbrögð stjórnvalda. Það bera breytingartillögurnar sem við leggjum til sannarlega með sér. Ég fór yfir það í byrjun ræðu minnar að um óverulegar breytingar á tekjuáætlun er að ræða, en það eru innbyrðis breytingar sem koma fram í sérstöku fylgiskjali. Nettólækkunin er 162 milljarðar. Á gjaldahliðinni eru hins vegar mjög umfangsmiklar breytingartillögur, eða 55,3 milljarðar kr. Af þeim rúmu 55 milljörðum eru 45 milljarðar sem eru hreinar Covid-tengdar aðgerðir. Þær skiptast á nokkur málefnasvið og eru þeim gerð sérstök skil í umfjöllun um flokka málefnasviða, en auk þess er að finna allar breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar í sérstökum kafla aftast í nefndarálitinu.

Þessar 45 milljarða Covid-tengdu aðgerðir skiptast gróflega þannig: Umfangsmesta aðgerðin er 19,8 milljarðar vegna viðspyrnustyrkja. Það færist á málefnasvið 30, vinnumarkaður og atvinnuleysi. Þar er um að ræða styrki til rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldursins og er til afgreiðslu í sérstöku frumvarpi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Á sama málefnasvið færast síðan 6 milljarðar kr. vegna framlengingar á hlutastarfaleið og greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Við vorum hér að afgreiða mál í gær, virðulegi forseti, m.a. varðandi hlutastarfaleiðina og var það kallað inn á milli 2. og 3. umr. til hv. velferðarnefndar þar sem nefndin var hvött til að skoða þær breytingar sem voru gerðar á miðju ári á því máli. Ég vil hvetja nefndina til að skoða það gaumgæfilega. Hluti af því var að kanna möguleika á að útvíkka úrræðið til handa félagasamtökum sem eru sannarlega með starfsmenn á launaskrá.

Þá eru lagðir til 2 milljarðar kr. sem dekka 2,5% viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga. Á málefnasvið 20, framhaldsskólastig, og 21, háskólastig, fara 5,4 milljarðar kr. sem er vegna verkefnisins Nám er tækifæri og er ætlað að gefa atvinnuleitendum tækifæri til þátttöku í námsúrræðum á framhalds- og háskólastigi auk framhaldsfræðslu. Hluti af framlaginu er til að mæta þeirri fjölgun nemenda sem verður vegna aðstæðna. Þannig að þetta er mjög myndarlegt framlag, 5,4 milljarðar, til skólastiganna til að mæta fjölguninni í skólunum og þessu frábæra úrræði sem er Nám er tækifæri. Nánari skipting á háskóla kemur síðan fram í umfjöllun um háskólastig.

Á málefnasviði 34, almennur varasjóður, er lagt til að veita 5 milljarða til að mæta óvæntum útgjöldum vegna Covid-19. Þar reikna ég með að það verði mikill hluti til heilbrigðismála. Á málefnasvið 32, lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála, sem geymir sérstakan vábirgðalið hjá sóttvarnalækni, er síðan lögð til fjárveiting til að kaupa bóluefni gegn Covid-19. Þá er ótaldir 5 milljarðar af þeim rúmlega 45 milljörðum sem fara í Covid-tengd mál og er um að ræða ýmis félagslega tengd úrræði, m.a. aukin framlög vegna barnabóta, aukning framlaga vegna laga um viðbótarstuðning við aldraða, aukinn stuðningur við fjölskyldur og börn, m.a. til að vinna á biðlistum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, aukin framlög til forvarnamála og jafnréttismála og þá eru 300 millj. kr. hækkuð framlög til að mæta fjölgun NPA-samninga.

Af þeim 10 milljörðum sem eftir standa fara 2,6 milljarðar í aukin framlög til endurhæfingarlífeyris og 2,1 milljarður fer til aukningar á fjárheimildum ellilífeyris vegna þess að aðrar tekjur ellilífeyrisþega utan ellilífeyris eru að lækka. 1,7 milljarðar eru aukin framlög til hjúkrunarheimila, þar af 300 milljónir vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar. Þar býr svokallaður RUG-stuðull að baki og þarf að reikna og er mismunandi eftir hjúkrunarheimilum. Það er afar mikilvægt að bæta hér úr þar sem það var ekki í frumvarpinu.

Þá standa eftir 3 milljarðar kr. sem eru fjöldi smærri framlaga og dreifast á fjölmörg málefnasvið eftir tegund. Mér myndi ekki endast tíminn til að þylja þau öll upp en ég treysti á kollega mína í hv. fjárlaganefnd og meiri hluta til að gera því að marki skil og í sjálfu sér alla hv. fjárlaganefnd í sínum ræðum. Ég vísa að öðru leyti til nefndarálitsins á bls. 21–45 og til þeirra þingskjala þar sem tillögurnar er að finna.

Ég ætla svo til glöggvunar að vísa til þessara þingskjala eins og þau koma fyrir. Á þskj. 531 er að finna allar gjaldatillögur, sundurliðaðar í sérstökum yfirlitum, þau eru þrjú. Það er endurmat á launa- og verðlagsforsendum. Síðan er lækkun á fjárheimildum vegna ferðakostnaðar en eðli máls samkvæmt, í þessu ástandi sem við búum við, hefur sá liður ekki útheimt jafn há útgjöld og við reiknuðum með. Svo er endurmat á verðlagsforsendum heilbrigðisstofnana.

Þá er í þskj. 532 gerð sérstaklega grein fyrir þeim tekjubreytingum sem ég fór yfir og á þskj. 533 er breytingartillaga við frumvarp til fjárlaga frá meiri hlutanum, heimildargrein, þar sem 4. töluliður 5. gr. orðist svo:

„Að taka lán allt að 220.000 m.kr. eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til viðbótar lántöku samkvæmt lið 1,“ — þetta er hækkun frá frumvarpinu úr 100 í 220, það eraugljóst að við þurfum að auka heimildir til aukinnar lántöku til að mæta öllum þessum aðgerðum — „til að mynda í því skyni að efla gjaldeyrisforða, endurfjármagna eldri lán eða til að mæta fjárþörf ríkissjóðs vegna rekstrar eða fjárfestinga, verði það talið hagkvæmt. Heimilt er að endurlána Seðlabanka Íslands lán sem tekin eru til að styrkja gjaldeyrisforðann.“

Þá er breytingartillaga á þskj. 534 við 6. gr. heimild, þar sem liður 7.22 orðist svo:

„Að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs á höfuðstól lána, að meðtöldum vöxtum, til að styðja við einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og hafa orðið fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Heimildin verður nýtt í samræmi við skilyrði sem kveðið er á um í lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt er heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast umsýslu vegna ábyrgðar ríkissjóðs á lánum.“

Virðulegi forseti. Breytingin snýr að því að við erum jöfnum höndum að samþykkja mál og að gera breytingar á þeim til að úrræðin virki betur þar sem hægt er að koma því við. Því er verið að aðlaga heimildina að því þannig að hún rúmi þær breytingar sem nefndir eru að gera hér og er til bóta.

Ég ætla að lokum, ég fer nú að ljúka þessari ræðu minni, að segja að þær breytingar sem lagðar eru til hér á milli umræðna bera þess merki í umfangi, fjölda og fjárhæðum að það er verið að bregðast við erfiðri stöðu með mjög öflugum hætti. Það er tímanna tákn að umfangsmesta aðgerðin hefur nafnið viðspyrna og á sama tíma eru kaup á bóluefni fjármögnuð. Það hillir undir að við spyrnum okkur frá botni og komum hagkerfinu af stað, efnahags- og atvinnulífi í eðlilegra horf.

Ég vil svo nota lokaorðin, og ég skal alveg viðurkenna að þetta er sérstök stund af því að við erum á enda kjörtímabils og með lokafjárlög þessa tímabils, til að ítreka þakkir sem ég kom inn á í upphafi ræðu minnar til hv. þingmanna sem sæti eiga í fjárlaganefnd fyrir afar góða vinnu, mikla þolinmæði og mikilvægt aðhald sem fylgir allri fjárlagavinnu. Af því sem ég hef upplifað í nefndarstörfum þá er vinnan í fjárlaganefnd auðvitað búin að vera mjög sérstök á þessu tímabili með alla fjáraukana sem við höfum haft til umfjöllunar. Þetta aðhald, þessi vinna og framfylgd mála á milli meiri hluta og minni hluta, er gríðarlega mikilvæg, ekki síst í fjárlaganefnd, þetta mikilvæga aðhald sem fylgir allri fjárlagavinnu. Ég vil þakka öllum nefndarmönnum fyrir góða vinnu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef dregið saman og eru gerð nánari skil í nefndaráliti og á sérstökum þingskjölum sem ég fór yfir.

Undir álit meiri hlutans rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Páll Magnússon.