151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

já,fjárlög 2021.

1. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir framsöguræðuna og kem nánar inn í ræðu minni hér á eftir. Ég vildi í upphafi koma inn á skuldsetningu ríkissjóðs. Ég held að nauðsynlegt sé að koma inn á það í andsvari. Hv. þingmaður hefur farið yfir það og við sjáum að það er svartsýnni mynd af efnahagsmálunum en menn gerðu ráð fyrir og hún er að raungerast miðað við hagvaxtarspá Hagstofunnar frá 1. október. Nú er Seðlabankinn með dekkri spá sem hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni. Ég vil koma aðeins inn á það hvers vegna ekki var tekið meira tillit til þeirrar spár. Auk þess nefndi hv. þingmaður að meiri hlutinn sé á ystu nöf hvað útgjöldin varðar og hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um endalausa blóðuga sóun í ríkiskerfinu. Hefði ekki verið eðlilegt undir þessum kringumstæðum að reyna að fara nánar yfir þá sóun, yfir útgjöldin, til að sjá hvar við getum sparað í þessum aðstæðum? Og í framhaldi langar mig að spyrja hv. þingmann við hvaða mörk skuldsetningar hjá hinu opinbera er ástandið orðið hamlandi fyrir hagvöxt. Þetta er náttúrlega lykilspurning, ef hv. þingmaður gæti komið inn á það. Hvað telur formaðurinn raunhæft að það taki langan tíma að komast aftur niður að skuldamarkinu sem er um 30% af vergri landsframleiðslu?