151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir mjög góðar spurningar. Við skoðuðum þetta allt saman. Hv. þingmaður spurði fyrst um þessa spá. Við fáum nýja spá á næsta ári og dekkri sviðsmynd. Það er þannig innskrifað í fjármálaáætlun, sem liggur til grundvallar fjárlögum, að þar er teiknuð upp dekkri sviðsmynd og hún er að raungerast. Það sem er ekki skrifað inn í fjárlög og þess vegna ekki skrifað inn í fjármálaáætlun er að ef við berum okkur saman við önnur Norðurlönd þá er niðursveifla skarpari hér á landi. Við förum í dýpri dal þegar við metum þetta út frá verðmætasköpun. Það sem er ekki innskrifað er það sem gerist þegar við náum viðspyrnunni, þá verður hún skarpari upp á við og það er eitthvað sem við eigum að horfa jákvæðum augum á. Mörk skuldsetningar, já, ég er svo sannarlega á þeirri skoðun að við eigum alltaf að horfa á þau mörk, horfa á útgjaldaþróunina yfir tímabilið, eins og við erum að gera í meiri hlutanum. Og ég stend við það að ef það er eitthvað sem má gagnrýna þá er það útgjaldavöxturinn. Við verðum að horfa á þau mörk sem snúa að sjálfbærni. Það er ekkert algilt viðmið til um það hver sjálfbærnin er. Það er svo mismunandi eftir því hvernig framleiðsluþáttum er hagað milli þjóða hvaða möguleika þær hafa, hvernig samsetningin er á útflutningi o.s.frv. og ég næ ekki að svara því almennilega, vildi svo sannarlega gera það. Það er talað um 60–80% og ef við nýtum allt óvissusvigrúmið og þetta verður þyngra, dekkri sviðsmyndin raungerist, þá förum við í 59% af vergri landsframleiðslu þannig að við eigum að ráða við þetta.