151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið en þetta er að sjálfsögðu umræða sem við þurfum að fara mun dýpra í hér við lengri tímamörk, svo sannarlega. En ég vildi koma aðeins inn á eitt sem mér finnst algjörlega skorta í þessu frumvarpi og það er að koma til móts við kröfur eldri borgara. Það er sá hópur sem hefur verið skilinn eftir, að dómi okkar í Miðflokknum, í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa ráðist í. Það eru sérstakar greiðslur til öryrkja, sem er gott mál og við styðjum það að sjálfsögðu, en það er nú einu sinni þannig að þeir eldri borgarar sem búa við lökustu kjörin, eru þá þessi lægsta tekjutíund sem hefur verið rætt um hér, eru jafnvel verr settir en þeir öryrkjar sem fá t.d. þessa eingreiðslu sem er á þessu ári 70.000 kr., skattfrjálsar, sem er gott mál. Hvers vegna hafa menn ekki horft til þessa hóps eldri borgara í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lagt til (Forseti hringir.) sem hafa margar hverjar þegar komið til framkvæmda?