151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú skulum við halda staðreyndum til haga. Við erum að tala um 80 milljarða stofnun í umfangi. Við erum að tala um aðhaldskröfu og ég fór yfir það í fyrra andsvari að við viljum endurskoða það hvernig við notum almennar aðhaldskröfur í öllum opinberum fjármálum. Þetta eru 400 millj. kr. og ráðherra hefur meira að segja útgjaldasvigrúm til að slá þessa aðhaldskröfu af, ef ráðherrann sem ber ábyrgð á málaflokknum kýs svo. Það á ekki að trufla neitt og það er bara ekki rétt að leggja þurfi niður heilu deildirnar út af þessu, út af einhverjum 400 millj. kr. í 80 milljarða umfangi. Það þarf einungis að horfa á samhengi þessara talna til að sjá það.

Hallinn — það hefur bara verið sagt — á ekki að trufla neitt í starfseminni. Það er bara í samkomulagi milli ráðherra og fjárlaganefnd hefur ekki stigið fastar inn í það en svo að hafa átt góð samtöl við spítalann. (Forseti hringir.) Við viljum ekki að uppsafnaður halli sé að trufla neitt í rekstri þessarar stofnunar. Það hefur komið alveg skýrt fram.