151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hér talaði hv. formaður fjárlaganefndar um endurmat útgjalda og að stofnanirnar vissu best hvernig fjárheimildum þeirra væri hagað o.s.frv. En samt, þegar við spyrjum um lögbundin verkefni þessara stofnana, þá yppta menn öxlum, vita ekki hvað rekstur þeirra kostar, rekstur þeirra verkefna sem við setjum samkvæmt lögum sem eiga að vera kostnaðarmetin. Það á að meta áhrif þeirra, hvaða áhrif þau hafa á réttindi og stöðu fólks. Svo þegar við spyrjum eftir á hvað þetta kostaði síðan þegar allt kom til alls þá veit það enginn og sagt er: Við erum bara með einhverja heildarupphæð hérna sem dekkar allt sem við þurfum að gera. Er það í alvöru þannig? Nei, það getur ekki verið þannig. Við verðum að spyrja um hvert og eitt lögbundið verkefni sem við erum að vinna af því að það hefur áhrif á það hvernig við setjum lög, hvernig við meðhöndlum réttindi í löggjöfinni, hvernig við meðhöndlum eftirlit okkar með endurmati útgjalda. Þetta er fyrri spurning mín í þessu andsvari, sem snýst um lögbundin verkefni: Hvernig getum við í alvörunni stundað endurmat útgjalda og unnið fjárheimildavinnuna án þess að vita hvað lögbundin verkefni kosta okkur?

Hitt sem mig langar til að spyrja formann fjárlaganefndar um er: Er það réttlætanleg krafa að lífeyrir fylgi ekki almennri launaþróun á næsta ári heldur þessum sérstöku kjarasamningum sem voru gerðir, lífskjarasamningunum? Það var tekin önnur ákvörðun um það hvernig laun yrðu hækkuð í lífskjarasamningunum með hækkun lægstu launa í krónutöluhækkunum en það þýðir að almenn launaþróun í hlutfalli og í skilningi laga um almannatryggingar, 69. gr. þar, er allt öðruvísi. Hækkun lægstu launa (Forseti hringir.) um krónutölu þýðir lág prósentuhækkun almennt séð. (Forseti hringir.) Ef lægstu bætur eru hækkaðar þannig þá er það miklu miklu lægri upphæð.